143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í umræðum í þinginu eru ýmis málefni er tengjast umferðarmálum og forvörnum er snúa að þeim mér hugleikin. Eitt þeirra mála er snýr að málaflokknum er þingsályktunartillaga mín um hert viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri en ég mun tala fyrir henni hér í þingsal seinna í dag.

Annað mál sem mér finnst mikilvægt varðandi öryggi vegfarenda í umferðinni er hjálmanotkun. Mikil vitundarvakning hefur orðið um hjálmanotkun á undanförnum árum og sem betur fer hefur notkun hjálma aukist, meðal annars hjá börnum og unglingum. Ég efast ekki um að gjafmildi ýmissa félagasamtaka hafi mikið um það að segja og aukin fræðsla um öryggi hjálma. Þess vegna finnst mér miður að heyra að ákveðin félagasamtök sem gefið hafa hjálma í 1. bekk grunnskólanna séu nú í vandræðum, sitji uppi með stóran lager af hjálmum sem ekki er hægt að afhenda þar sem stórt sveitarfélag hér á landi hefur neitað að taka við hjálmunum að gjöf frá félagasamtökunum. Ástæðan er meðal annars sú að hjálmarnir eru merktir flutningafyrirtæki sem flytur hjálmana frítt til landsins og verður það til þess að félagasamtökin fá ekki að fara með þessa góðu gjöf inn í 1. bekk grunnskóla í sveitarfélaginu sem hér um ræðir.

Ég verð að lýsa undrun minni með þetta mál því að við vitum að reiðhjólahjálmar kosta mikla peninga og það geta ekki allir klofið þann kostnað sem þarf til að kaupa þá. Mér persónulega finnst rangt að umrætt sveitarfélag taki það val af fjölskyldum hvort þær kjósi að fá þessa hjálma afhenta eða ekki. Mér finnst það óþarfaforræðishyggja.

Af hverju er ekki sú leið farin að afhenda hjálmana og leyfa fjölskyldum að hafa valið?