143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að óska eftir því að hæstv. forseti kanni sérstaklega hvort þingsköp hafi verið brotin í umræðunni fyrr í dag þegar hv. þm. Jón Þór Ólafsson vitnaði beint til ummæla sem féllu á lokuðum fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun.

Ég ætlaði samt ekki að tala um það, ég ætlaði að tala um fjárstjórn ríkisins. Að mínu mati er alveg ljóst að við þurfum að innleiða aukinn aga í okkar vinnubrögð hér varðandi fjárlagagerðina. Við höfum til umræðu í dag fjáraukalög og við sjáum hversu mikil frávik eru frá þeim fjárlögum sem samþykkt voru á þinginu fyrir ári. Þetta er auðvitað ekki ný umræða, við höfum tekið hana öll undanfarin ár. Ég tel rétt að við setjumst yfir það í sameiningu hvernig hægt er að innleiða aukinn aga.

Hér var beint fyrirspurn til hagræðingarhópsins sérstaklega af hálfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Auðvitað má gera betur varðandi aðhald í Stjórnarráðinu. Það er skoðun mín og ég stend við hana. En af því að hv. þingmaður vitnaði sérstaklega til þess stóraukna kostnaðar sem embætti forseta Íslands fer fram á, gert er ráð fyrir 14 millj. kr. til viðbótar í fjáraukalagafrumvarpinu, þá er það þannig að þótt 14 milljónir séu talsvert fé er gerð grein fyrir því að verið er að endurnýja tækjabúnað og tölvubúnað sem hefur setið á hakanum á undanförnum árum. Aðrar tölur vekja meiri athygli í þessum kafla um æðstu stjórn ríkisins og ber þar helst að nefna kaflann um rannsóknarnefndir Alþingis þar sem gert er ráð fyrir að 321,2 millj. kr. fari þar inn. Ekki var gert ráð fyrir að slík nefndarvinna mundi kosta þá stórfenglegu fjármuni sem hún hefur gert. Við þurfum að taka okkur tak í þessu. Við getum ekki farið endalaust fram með auknar rannsóknarbeiðnir, nýjar skýrslubeiðnir, án þess að gera ráð fyrir því að það kosti fjármuni. (Forseti hringir.) Á því berum við ábyrgð, við sem sátum hér á síðasta kjörtímabili.