143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er mikið alvörumál þegar skera þarf niður í ríkisrekstri og varðar miklu á hvern hátt það er framkvæmt. Þess vegna verð ég að viðurkenna að fréttir af málefnum Ríkisútvarpsins í gær valda mér nokkrum áhyggjum og einnig viðbrögð við þeim. Það er nú einu sinni þannig að þegar maður fær það verkefni að skera niður í einni stofnun tekur maður venjulega ígrundaða ákvörðun um hvernig það er hægt, en í tilfelli Ríkisútvarpsins í gær virðist það vera gert með nokkuð tilviljunarkenndum hætti og nokkuð snöggt.

Heildarkostnaðurinn við rekstur Ríkisútvarpsins er í kringum 3 milljarða kr. Þar af eru launagjöld í kringum 2,2 milljarða. Ríkisútvarpið telur sig þurfa að skera niður um 500 millj. kr. en hagræðingarkrafan er 300 millj. kr. Þetta eru allt saman tölur sem maður fær ekki alveg til að ganga upp. Ég hef satt að segja áhyggjur af því að menn hafi ekki lagt nógu ríka vinnu í að fara yfir rekstur Ríkisútvarpsins í heild áður en tilgreindar uppsagnir sem voru birtar í gær komu fram.

Ég verð líka að viðurkenna að viðbrögðin hér í þingsal komu mér nokkuð á óvart vegna þess að þetta er fjarri því eina stofnunin sem hefur verið skorið niður hjá undanfarandi ár. Ég man til dæmis ekki eftir því að hafa séð þingmenn hópast hér upp í ræðustól sérstaklega út af niðurskurði til lögreglunnar undanfarin ár. [Kliður í þingsal.] Ég man heldur ekki eftir því að sett hafi verið á stofn fésbókarsíða út af niðurskurði til lögreglunnar og ég man heldur ekki eftir því að menn hafi boðað til stuðningsfundar við lögreglustöðina. Ég man reyndar eftir áhlaupi á hana en ekki eftir stuðningsfundi. (Forseti hringir.) Ég held að menn ættu aðeins að ígrunda það hvernig ráðist er í niðurskurð (Forseti hringir.) þegar honum þarf að beita.