143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög gott að hæstv. ráðherra skyldi koma inn á fjárfestingaráætlunina vegna þess að það hefur verið mjög gagnrýnt af Viðskiptaráði, af Alþýðusambandinu og fleirum að verið sé að skera niður hagvaxtarskapandi verkefni þegar við þurfum svo sárlega á hagvexti að halda. Hæstv. ráðherra ætti því ekki að fara yfir það eins og hann gerir hér vegna þess að hann gerir það á fölskum forsendum. Þessir 4 milljarðar, þetta er sjálfsskaparvíti vegna þess að þeir voru teknir niður með því að ríkisstjórnin afsalaði sér tekjunum fyrir þeim, hún afsalaði sér tekjunum fyrir þessum hagvaxtarskapandi verkefnum í fjárfestingaráætlun með því að segja nei takk við hærri veiðigjöldum og með því að segja nei takk við sköttum á ferðamenn.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að koma hingað upp og tala á þann veg að þetta hafi allt verið ófjármagnað. Það er beinlínis rangt og þessar tölur standast á í frumvarpinu sjálfu. Í greinargerðinni kemur skýrt fram að tekjurnar sem menn afsala sér vegna veiðileyfagjaldsins eru 3,2 milljarðar og tekjurnar sem menn afsala sér vegna virðisaukaskatts á gistiþjónustu er hálfur milljarður. Þetta stemmir við tölurnar um niðurskurðinn í fjárfestingaáætlun, virðulegi forseti, þannig að þetta er beinlínis rangt.

Það að þetta sé ófjármagnað, það er ákvörðun þessarar ríkisstjórnar, ekki fyrri ríkisstjórnar. Þar var allt frágengið, virðulegi forseti. Þessu tali verður að linna og menn þurfa að tala um veruleikann og segja einfaldlega frá því: Þetta er hugmyndafræðilegur munur þessara tveggja ríkisstjórna. Við teljum að það skapi frekar hagvöxt að lækka skatta á sjávarútveginn en sleppa öðrum hagvaxtarhvetjandi verkefnum en fráfarandi ríkisstjórn taldi réttara að þiggja veiðigjöld (Forseti hringir.) til að breikka, vonandi til framtíðar, tekjustofna og styrkja gjaldeyrisaflandi atvinnuvegi í landinu.