143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða var eiginlega með miklum ólíkindum. Í fyrsta lagi hefur það vakið athygli mína hversu prinsipplaus Samfylkingin er orðin í umræðu um veiðigjöldin. Það er alveg með ólíkindum hversu langt menn hafa ferðast frá niðurstöðu auðlindanefndarinnar á sínum tíma þar sem við gátum rætt af yfirvegun og með málefnaleg sjónarmið til grundvallar um auðlindarentu, viðbótarhagnað hjá sjávarútveginum, sem rétt væri að skattleggja; og hjá öðrum greinum sem nytu forgangs til nýtingar á auðlindum.

Í dag er hugsað um sjávarútveginn sem einhvers konar uppsprettu skatttekna fyrir ríkissjóð og það verði þeim mun meira tekið sem vantar í einhver önnur verkefni. Samfylkingin er búin að leggja af umræðu um auðlindagjöld og hefur algjörlega yfirgefið fyrri hugmyndafræði sína í umræðu um það mál.

Aðeins um verkefnin að öðru leyti sem hér er vísað til, rannsóknar- og þróunarverkefni. Tækniþróunarsjóður hefur aldrei haft meira umfang en á árinu 2013 og það gildir eftir að við höfum gert þær tillögur sem fram koma í þessu frumvarpi. Hann fékk 550 milljónir ofan á fyrri framlög — ofan á þau — og heldur samkvæmt frumvarpinu 400 milljónum af viðbótinni og hefur þannig aldrei í sögunni haft meira umleikis. Sama gildir um Rannsóknasjóðinn þannig að þetta er beinlínis rangt.

Ef við hefðum farið þá leið hv. þingmanns og Samfylkingarinnar að taka meira af sjávarútveginum og skilað því í þessa sjóði, eins og hér er verið að leggja upp með, hefðum við engu að síður verið með ríkissjóð í 31 milljarðs halla. Fyrri ríkisstjórn ætlaði sér að hafa hann einungis 3 milljarða þannig að fullyrðingar um að þetta hafi allt verið fjármagnað eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Niðurstaðan væri engu að síður 30 milljarðar sem bætast á skattgreiðendur framtíðarinnar í nýjum lántökum.

Hvar eru annars tekjurnar af leigukvótanum sem áttu að standa undir fjárfestingaráætluninni? Hvar eru annars tekjurnar af arðinum (Forseti hringir.) sem ég er búinn að rekja hér í dag að er ekki að skila sér? Hvar eru annars tekjurnar af sölu eigna upp á 4 milljarða? Ekkert af þessu hefur skilað sér.