143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með flokkssystur minni, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, ekki verður of oft sagt hver er mismunurinn á pólitík hér, annars vegar að styrkja nýju greinarnar og hins vegar að sleppa útgerðarmönnum og öðrum við að borga fyrir afnot af auðlindinni.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um atriði sem ég sannast sagna skil ekki. Það er um vaxtalækkun upp á 7,5 milljarða kr. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Þar vegur þyngst 7,5 milljarða kr. lækkun vaxtagjalda en hún á að stærstum hluta rætur að rekja til þess að breytingar á skuldabréfi til Seðlabanka Íslands, (Gripið fram í: Blaðsíðu hvað?) sem áformaðar voru í fjárlögum 2013, gengu ekki eftir.“ Þetta er á blaðsíðu 66. „Gert hafði verið ráð fyrir að skuldabréfinu yrði breytt úr verðtryggðu í óverðtryggt bréf og að vaxtagjöld myndu aukast við það að verðbótaþáttur færðist með nafnvöxtum um rekstrarreikning ríkisins í stað þess að færast sem endurmat í efnahagsreikningi.“ Nú liggur fyrir að skilmálar bréfsins verða óbreyttir, o.s.frv., o.s.frv, eins og menn segja oft.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Gæti hann útskýrt þetta fyrir mér? Ég skil þetta ekki.