143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarin ár, frá hruni, hefur staða ríkisfjármála verið erfið. Ég held að við getum öll verið sammála um að verkefnið að ná hér heildarjöfnuði í ríkisfjármálunum hefur verið ærið, það hefur verið strembið en það er mikilvægt líka að menn noti ekki fjárlögin alltaf til að skrifa söguna. Á síðasta kjörtímabili gerði þáverandi stjórnarandstaða, sem nú myndar ríkisstjórnarmeirihlutann, í því að mála hér myndina upp af ríkisfjármálunum eins og sú neikvæða staða hefði verið sköpuð af síðustu ríkisstjórn. Það vita allir að er rangt.

Núna reyna menn að skapa þá mynd að sitjandi ríkisstjórn taki við óvenjulega erfiðu búi. Ef eitthvað er eru menn að teikna hér upp svartari mynd en raun ber vitni og ég ætla að fara yfir það hér á eftir.

Virðulegi forseti. Á árinu 2008 var neikvæður heildarjöfnuður hér á landi í ríkisfjármálunum nærri því 14% af landsframleiðslunni. Það var stærðarinnar verkefni að fást við það og síðasta ríkisstjórn gerði það að kjarnanum í sinni efnahagsstefnu að takast á við þá stöðu. Það tókst með þeim hætti að menn ákváðu að fara hina blönduðu leið tekjuöflunar og niðurskurðar. Það gerði að verkum að sá árangur náðist, ef miðað er við fjárlagafrumvarp þessa árs óbreytt, upp á 14% af landsframleiðslu, þ.e. uppsafnaðar tekjuöflunaraðgerðir og niðurskurðaraðgerðir. Tekist var á við vandann af fullri festu.

Ég vil meina að núverandi ríkisstjórn hafi fengið ágætt bú til að vinna úr þó að það sé algerlega ljóst og hafi komið skýrt fram hjá stjórnmálaflokki mínum í síðustu kosningum að staðan er í járnum. Það er alveg skýrt og við vitum það. Það er ætlun okkar að standa með núverandi ríkisstjórn til að við getum farið að greiða niður skuldir svo að við getum nýtt þá tugi milljarða sem fara í vaxtagreiðslur árlega í önnur og þarfari verkefni.

Niðurstaðan sem við sjáum í þessu fjáraukalagafrumvarpi er hreint og klárt sjálfskaparvíti núverandi ríkisstjórnar. Menn nota til dæmis ekki nýjustu hagvaxtarspá Hagstofunnar, menn hafa ákveðið að afsala sér tekjum, þeir hafa sjálfir skapað fullkomna óvissu í efnahagsmálum með því að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þeir hafa ekki greint frá því mánuðum saman hvernig eigi að fjármagna hundruð milljarða niðurfærslur á skuldum heimilanna og dregið það lengi að skila fjárlagafrumvarpi sem sýndi á spilin til næstu ára.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í andsvari við hæstv. ráðherra áðan þá er ég undrandi á því hvers vegna menn hafa ákveðið undanfarna daga, þegar þeir vita betur, að nota allt að 30 milljarða mínus sem þessi ríkisstjórn er að kljást við. Hæstv. ráðherra gerði það í ræðu sinni áðan. Það eru alltaf óvissuþættir um fjárlög vegna vaxtakostnaðar sem í þessu tilfelli hefur lækkað þar sem þróunin frá samþykkt fjárlaga hefur verið jákvæð, en menn ákveða að taka það ekki með. Það eru óvissuþættir vegna hagvaxtar sem í þessu tilfelli er verri en bestu upplýsingar gerðu ráð fyrir við samþykkt fjárlagafrumvarpsins, en menn ákveða að nota ekki nýjustu hagvaxtarspána af því að hún er dálítið betri og gefur betri mynd af stöðunni heldur nota þá verstu á árinu.

Virðulegi forseti. Menn hljóta að vera að búa til réttlætingu í skjóli ríkisfjármálanna til að gera þær breytingar á íslensku samfélagi sem við höfum séð í fjárlögum að undanförnu. Ég skil ekki hvers vegna menn koma ekki bara hreint fram og segja: Við erum að gera þessar breytingar af hugmyndafræðilegum ástæðum.

Annað: Hvers vegna er þetta sjálfskaparvíti? Þá verð ég að koma aftur inn á það að menn hafa verið að afsala sér tekjum. Fyrstu verkefni þessarar ríkisstjórnar og fyrstu málin sem menn lögðu fram voru mál til að afsala sér tekjum strax á þessu ári. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu eru þessar upphæðir tilteknar mjög skýrt, 3,2 milljarðar vegna veiðileyfagjalda. Þetta snýst ekki um að menn hafi farið eitthvað út af sporinu í stefnu Samfylkingarinnar. Við höfum alltaf sagt að eðlilegt sé að menn greiði fyrir umframarð sem sannanlega myndast vegna sérleyfa til að nýta íslenskar auðlindar. Þetta er algjörlega skýrt, hefur alltaf verið og er enn. Þess vegna lögðum við til þá upphæð sem var í fjárlagafrumvarpinu fyrir þetta ár og menn hafa nú afsalað sér. Menn hafa líka afsalað sér hálfum milljarði vegna gistináttagjalds af ferðaþjónustunni. Ég tel að það hafi verið afleikur.

Annar stór þáttur í þessu er óvissan sem ríkisstjórnin hefur skapað í efnahagsmálum þjóðarinnar sem hefur áhrif á hagvöxtinn og heldur honum niðri. Það eru ekki einhver ósannindi frá stjórnarandstöðunni eða vilji til að segja ósatt eða ljúga einhverju til eins og hæstv. forsætisráðherra sakar okkur ítrekað um.

Eins og ég kom inn á áðan hefur framan af verið óvissa um efnahagsmálin, greiningardeildir bankanna komu vel inn á það, vegna þess að menn komu seint fram með fjárlög og sýndu of seint á spilin hvað það varðaði, hvort þeir ætluðu að reyna að ná heildarjöfnuði eða ekki. Það hefur líka verið óvissa um fjármögnun skuldaleiðréttinga. Ég hef saknað hæstv. fjármálaráðherra í þeirri umræðu þar sem hann færi yfir og sýndi á spilin hvað varðaði fjármögnun skuldaleiðréttinganna. Það hefur ekki vantað upp á að forsætisráðherra stígi fram og lýsi því hvernig mögulega eigi að framkvæma þær, gefið okkur einhverja mynd af því, gerði það um síðustu helgi, en það hefur aldrei komið fram hvernig menn ætla að fjármagna leiðréttinguna. Það er lykilatriðið. Óvissan fyrir íslenskt efnahagslíf snýst um það. Þegar menn segja að ríkisstjórnin hafi með margvíslegum aðgerðum og yfirlýsingum í vor sett hagkerfið í algjöra biðstöðu, rifið í handbremsuna, þá er þetta ein ástæðan fyrir því.

Svo má auðvitað líka nefna óvissuna í gjaldmiðilsmálum, það hefur ekki komið fram neitt plan um hvernig eigi að taka á þeim málum. Menn segja bara: Við ætlum að halda í krónuna — en það hefur ekkert komið fram hvernig.

Það er ekki hugarburður vondra samfylkingarmanna í stjórnarandstöðu að hér sé algjör óvissa í efnahagsmálum. Aðilar vinnumarkaðarins eru flestir á einu máli um það að semja verði til skamms tíma vegna óvissu í efnahagsmálum. Haft er meðal annars eftir formanni Starfsgreinasambandsins að óvíst sé hvaða áhrif aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi á ráðstöfunartekjur heimilanna og þess vegna sé ekki óhætt að semja nema til skamms tíma. Það skapar í sjálfu sér áframhaldandi óvissu.

ASÍ er á sama máli og ég vil fá að vitna í rit sambandsins um horfur í efnahagsmálum frá því í október þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þá fylgir efnahagsleg óvissa nýrri ríkisstjórn. Boðaðar hafa verið miklar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila eða eins og forsætisráðherra komst að orði á Alþingi 10. september: „Í undirbúningi eru róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni í þágu skuldsettra heimila.“ Útfærsla þessara aðgerða liggur ekki fyrir en ljóst er að aðgerðirnar geta haft mikil áhrif á þróun efnahagslífsins. Þá hefur ríkisstjórnin sett aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á ís og forsætisráðherra sagt að íslenska krónan verði gjaldmiðill á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð. Ríkisstjórnin verður því að sýna með trúverðugum hætti hvernig hún sér fyrir sér stjórn peningamála til framtíðar, hvernig hún ætlar að losa um gjaldeyrishöftin og hvernig hún sér fyrir sér þróun gengis og verðlags.

Eftir þessu bíða aðilar vinnumarkaðarins.“

Svona mætti halda áfram. Síðast í morgun lýsti Lars Christensen ásamt hagfræðingi OECD í samtali við Bloomberg sömu áhyggjum og fór vandlega yfir það hvers konar óvissa hefur skapast hér. Ekki megum við gleyma að í sumar færði Standard & Poor's horfur á lánshæfismati Íslands úr stöðugum í neikvæðar, einmitt á þessum forsendum: óvissu um fjármögnun skuldaleiðréttinga og annarra þátta og stefnu þessarar ríkisstjórnar hvað varðar stóra þætti í íslensku efnahagslífi.

Allt heldur þetta samfélaginu og efnahagskerfinu niðri, öll þessi óvissa heldur hagvexti niðri.

Virðulegi forseti. Fleiri þætti má nefna sem gefa vísbendingar um hið sama. Fyrirtæki og einstaklingar halda að sér höndum í slíkri óvissu vegna þess að í nýjustu þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem ég kom inn á áðan en er að vísu ekki notuð í forsendum þessa fjáraukalagafrumvarps, er farið yfir það að ráðstöfunartekjur hafi aukist þó nokkuð í ár vegna launahækkana umfram verðbólgu og mikillar styrkingar vinnumarkaðar, engu að síður er vöxtur einkaneyslu hægur; hann er talinn verða um 1,6% á þessu ári.

Þetta segir okkur að það eru ekki bara fyrirtæki sem halda að sér höndum hvað varðar fjárfestingar vegna óvissu í gjaldmiðilsmálum, óvissu um stöðu efnahagslífsins og þróun verðbólgu eftir að farið verður hér í skuldaleiðréttingar vegna þess að menn hafa ekki hugmynd um hvernig þeir ætla að gera þetta. Heimilin og fólkið í landinu heldur líka að sér höndum. Það eru allir að bíða. Þetta er merki um það, virðulegi forseti. Hið sama segir í fréttum af fasteignamarkaði. Fólk heldur að sér höndum. Fyrirtæki halda að sér höndum varðandi fjárfestingar. Það er verkefni stjórnvalda að ýta undir fjárfestingar í landinu og skapa hér hagvaxtarhvetjandi verkefni og taka þátt í því, ekki að lækka bara skatta, krossleggja svo hendur og bíða eftir því að atvinnulífið geri eitthvað. Við slíkar aðstæður er verkefni stjórnvalda hverju sinni að búa til vöxt.

Í áðurnefndri skýrslu ASÍ segir að ein helsta skýringin á því hve erfiðlega hafi gengið að auka verðmætasköpun þjóðfélagsins séu litlar fjárfestingar. Það má fara yfir það hversu lágar þær eru. Í skýrslunni segir líka að væntingar hafi staðið til þess að núverandi ríkisstjórn stuðlaði að því að hér ykjust fjárfestingar en það séu engin merki um að ríkisstjórnin ætli að gera neitt slíkt því að sú litla aukning sem hefur verið hafi verið fyrirsjáanleg vegna þess að þau verkefni voru ákveðin í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þetta kemur skýrt fram, virðulegi forseti. Það eru einu merkin. Nefnd er uppbygging kísilvers á Bakka við Húsavík, fjárfesting í innviðum á því svæði, Vaðlaheiðargöng auk þess sem Norðfjarðargöng voru undirbúin og ákveðin í tíð þeirrar ríkisstjórnar. Svo gagnrýnir ASÍ líka, alveg eins og Viðskiptaráð gerir, að núverandi ríkisstjórn hafi helst sett sín fingraför á fjárfestingar í landinu með því að falla frá fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar enda hafi það verið hennar fyrsta verk að afþakka tekjur af veiðigjaldi sem áttu að standa undir stórum hluta hennar.

Það er ekki hugarburður vondra samfylkingarmanna að þetta hafi verið röng ákvörðun. (Gripið fram í.) Það er líka skoðun Alþýðusambands Íslands. Það er líka skoðun Viðskiptaráðs Íslands sem hefur gagnrýnt það harðlega að menn ætli að falla frá hagvaxtarhvetjandi verkefnum og vísað þar til ráðlegginga, mjög góðra, sem ég held að flestir hafi tekið undir í þessum sal á síðasta þingi, í McKinsey-skýrslunni þar sem sagði að við Íslendingar þyrftum að fjölga útflutningsgreinum á Íslandi, horfa til svokallaðs alþjóðageira og til að byggja undir það þyrfti að auka stuðning við samkeppnissjóði, nýsköpun og rannsóknir í landinu. Hvað eru menn að gera hér? Kippa því aftur í gamla, góða farið sem var ekki nóg.

Þessu sjálfskaparvíti og þeirri stöðu sem menn sýna í þessu fjáraukalagafrumvarpi vísa ég algerlega til föðurhúsanna, til ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún hefur skapað þessa stöðu sjálf eins og ég hef farið vandlega yfir. Ég tel engu að síður að við ættum að geta verið sammála um að við viljum ná heildarjöfnuði (Forseti hringir.) í ríkissjóði sem allra fyrst, en þetta er alls ekki leiðin.