143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi sjóðina efa ég ekki að menn hafi undirbúið málið eitthvað áður en þeir hentu frumvarpinu frá. Ég get vel ímyndað mér að það standi þannig að sjóðirnir komist ekki í þrot vegna þess að jafnvel þótt þeir hafi lofað styrkjum eru þeir ekki allir samtímagreiddir. Kannski eru menn bara í skjóli tafarinnar sem stundum verður frá því að úthlutun á sér stað og þangað til að greiðslur eru hafnar að læða sér þar inn, en það þýðir að staðan verður enn þá erfiðari á næsta ári. Það sem kemur mér algjörlega á óvart er að hægt sé að stúta markáætlun í heilu lagi í fjáraukalagafrumvarpi sem kemur svona seint fram. Eða var ríkisstjórnin búin að hafa samband við þessa aðila í ágúst, september og banna þeim að vinna samkvæmt gildandi fjárlögum? Þá væri líka fróðlegt að vita það.

Ég tel að hér sé að mörgu leyti gengið lengra en við eigum að venjast varðandi það að fara með neikvæðum áhrifum inn í fjárlög samþykkts árs. Hæstv. fjármálaráðherra fór ágætlega með það í framsöguræðu sinni hvernig fjáraukalög eru hugsuð, á grundvelli fjárreiðulaganna frá 1996. Þau eru ekki hugsuð til þess að grípa inn í það sem búið er að ákveða í fjárlögum. Þau eru hugsuð til þess að mæta óvæntum og ófyrirséðum atvikum sem er óhjákvæmilegt að bregðast við. Það á ekki við um þetta. Ég held að þetta séu ekki góð skilaboð gagnvart því menn geti sæmilega treyst því að þeir hafi það milli handanna sem hefur verið samþykkt í fjárlögum og þegar langt er komið inn á það fjárlagaár.

Ég mundi skilja stjórnendur þessara sjóða og marga fleiri vel, að þeir væru ansi súrir að frétta af því, ef svo er, að þetta væri gert án þess að þeir hafi fengið aðvörun, 27. nóvember, eða var það 26. sem þessu var lætt á vefinn hér rétt fyrir miðnætti? Það er ansi seint á árinu, hæstv. fjármálaráðherra, sem menn fá þennan skell. Jú, jú, umsvifin eru kannski meiri en þau voru á erfiðasta tíma kreppunnar en var það ekki það sem við vorum sammála um, að eitt af því allra (Forseti hringir.) mikilvægasta fyrir okkur væri að fara að gefa í á þessu sviði um leið og við lífsins mögulega gætum?