143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fjáraukann þá hygg ég nú að við höfum mörg dæmi þess í sögunni að í fjáraukalögum hafi verið tekin ákvörðun um að draga úr ýmsum útgjaldaáformum. Ég geri nú ekki ráð fyrir öðru en að það hafi til dæmis verið örlög frumvarpsins fyrir árið 2009 að fá á sig harkalegan niðurskurð í fjáraukalagafrumvarpinu. En varðandi sjóðina þá er mjög mikilvægt að við séum að tala um þetta frá sama grunni, þ.e. við erum í raun að ræða um innspýtinguna inn í sjóðinn sem til dæmis í tilfelli Tækniþróunarsjóðs var 550 milljónir kr. Verði frumvarpið samþykkt eins og það liggur hér fyrir þá standa eftir 400 milljónir kr. af innspýtingunni inn í sjóðinn sem kemur ofan á grunninn sem fyrir var.

Það er þess vegna sem ég segi að jafnvel þótt þetta væri tekið af því sem fyrirhugað var sem innspýting inn í sjóðinn þá væru umsvif hans meiri en nokkru sinni fyrr. Í því birtist líka ákveðin stefnumörkun en hér er látið sem svo að nýir stjórnarflokkar horfi ekki til mikilvægis sjóðsins og þess þýðingarmikla hlutverks sem hann gegnir.

Síðan er það aftur önnur umræða hvort við séum komin svo langt inn í árið að það raski öllum forsendum en við undirbúning frumvarpsins var fyrst og fremst horft til þess hversu miklu væri óúthlutað og ekki er gert ráð fyrir að hluta þess fjármagns verði viðhaldið í fjárlagafrumvarpi árið 2013. Það verður án vafa verkefni nefndarinnar að fara ofan í saumana á þessu en það er sem sagt ekki allt skorið niður sem enn er óúthlutað. Ég deili almennt þeirri sýn ráðherrans fyrrverandi, sem talar hér um mikilvægi sjóðsins, að það eru verkefni af þessum toga sem við þurfum að leggja betri rækt við í dag og í framtíðinni.