143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt satt best að segja að það væri tiltölulega óumdeilt, enda gengur þetta svoleiðis í gegnum allar umræður um atvinnumál og nýsköpun og hvar möguleikarnir liggi, að menn hafi skilning á mikilvægi þess að leggja grunninn með öflugu menntunar- og rannsóknarstarfi og hlúa að nýsköpun og greinum sem geta vaxið og ekki eru háðar náttúrulegum takmörkunum. Þetta var ósköp einfalt þegar maður var að velta því fyrir sér á þeim árum þegar allt var hér í kalda koli, 2009–2010; hvar getur komið vöxtur, hvar eru sprotar sem hægt er að bera á?

Við vitum að það gerist ekki sjálfkrafa, bara upp úr þurru, að við förum að veiða meiri fisk eða margfalda verðmætin þar og það tekur 7-8 ár að byggja stóriðjufyrirtæki, eða hvað það nú er, en í vissum greinum geta hlutir gerst mjög hratt og þeir hafa gerst mjög hratt. Það hefur færst líf og þróttur í nýsköpunarfyrirtækin. Við sjáum mörg glæsileg dæmi þess. Því miður sjáum við að vísu sum þeirra fara úr landi en þá ættum við kannski líka að hugsa: Þurfum við ekki að leggja okkur enn betur fram við að búa þeim umgjörð hér heima sem er aðlaðandi að öðru leyti á meðan þau verða að sætta sig við að landið býr við gjaldeyrishöft? Það hélt ég, annars erum við í stórhættu að missa þetta fólk.

Þar skipta skilaboðin svo miklu máli. Ofan í þennan mikla niðurskurð á rannsóknar- og nýsköpunarliðunum koma áform um að draga úr endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar hjá sprotafyrirtækjum á næsta ári. Minnka hana úr 20% í 15%. Það eru mjög neikvæð skilaboð og hafa áhrif þar sem síst skyldi.

Auðvitað finnst mér það sama um að hér skuli nánast öllu sem heita grænar áherslur og grænkun atvinnulífsins og sjálfbærar greinar vera stútað, mér finnst það óskaplega dapurt en það kann að vera meira pólitískt. Sumir vilja lítið með það hafa og þá er það þannig.

Þarna tel ég ríkisstjórnina vera á mestum villigötum en ekki í hinu, hæstv. fjármálaráðherra, að sjálfsögðu verðum við að taka stöðu ríkissjóðs (Forseti hringir.) mjög alvarlega og reyna að vinna okkur út úr hallanum þannig að við náum afgangi á næsta ári.