143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er í fyrsta skipti að lesa svona fjáraukalagafrumvarp, finnst það mjög áhugavert. Ég stóð í þeirri meiningu að fjáraukalögin væru vegna einhverra algjörlega ófyrirséðra útgjalda, einhvers sem enginn sá fyrir. Ef ég les fjáraukalagafrumvarpið og byrja á 1. lið, sem er embætti forseta Íslands, er verið að biðja um aukafjárveitingu þar upp á 14 milljónir og þegar greinargerðin er lesin kemur í ljós að þetta eru alls konar liðir og ég get ekki séð að neitt þarna sé ófyrirséð. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta dæmi er að ég velti því bara fyrir mér hvernig við umgöngumst þessi fjáraukalög.

Við erum að tala um að endurnýja þurfi bifreiðar hjá forsetaembættinu. Það er nú eitthvað sem menn ættu að vita fram í tímann, það getur verið gott að vera bara með afskriftareikning, leggja fyrir smá á hverju ári. Það þarf að endurnýja tölvubúnað, það eru opinberar heimsóknir. Hér er heimsókn Danadrottningar nefnd, í tilefni af því að 350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar. Það hefur legið fyrir í að minnsta kosti 350 ár. Talað er um útgjöld vegna fálkaorðunnar og viðgerðir vegna gestahúss við Laufásveg. Ég spyr: Hvað í þessu er ófyrirséð? Af hverju lá þetta ekki fyrir í fjárlögum fyrir árið í ár?

Mér finnst þetta mjög skrýtin vinnubrögð og mikið agaleysi eins og hæstv. fjármálaráðherra kom reyndar inn á, að við þyrftum að bæta aga við fjárlagagerðina. Við þurfum að hætta að tala um að bæta hann, það er voðalega auðvelt að ætla öllum öðrum að sýna aga og tala um þetta, en við eigum greinilega mjög erfitt með þetta.

Ef maður heldur áfram þarna eftir lestur um embætti forsetans kemur Alþingi sem fer fram úr fjárheimildum. Ríkisstjórnina vantar 100 milljónir vegna biðlauna fyrrverandi ráðherra og aðstoðarmanna og þá velti ég fyrir mér: Er ekki við hæfi að gera ráð fyrir slíkum útgjöldum í fjárlögum fyrir kosningaár? Ef svo ólíklega vill til að allir ráðherrar haldi áfram og allir aðstoðarmenn líka er þarna bara einhver upphæð sem hægt er að nýta í eitthvað annað. Ég get ekki séð hvað er ófyrirséð í þessu. Síðan eru einhver útgjöld vegna sérfræðingahópa út af þessum skuldaleiðréttingamálum heimilanna, 40 milljónir sem mér þykir heldur hátt. Einhver einkennilegur liður þar sem búið er að færa græna hagkerfið, 74 milljónir, undir forsætisráðherra.

Ég bara nefni þetta, ég gæti farið svona í gegnum alla þessa liði. Þetta kemur mér bara mjög spánskt fyrir sjónir. Ég upplifi það ekki að fjárlagafrumvarp sé lög sem borin er mikil virðing fyrir, þetta er meira þannig að fjárlagafrumvarpið sé leiðbeiningar um æskileg útgjöld, ef þið vilduð vera svo væn. Ef planið gengur ekki eftir má alltaf redda því með fjáraukalögum. Mér skilst að fjáraukalög séu ekki þekkt annars staðar á Norðurlöndunum, að minnsta kosti ekki í jafn miklum mæli og hér. Við verðum að líta í eigin barm með. Það er alveg rétt að við bindum öll miklar vonir við ný lög um fjárreiður ríkisins, en ég er hrædd um að það sé hugsunarhátturinn sem við þurfum að breyta líka. Fjárlög eru líka lög.

Ég velti líka fyrir mér hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi yfirgefið okkur of snemma, hvort við þurfum að hafa einhvern eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn yfir okkur, hafa hann á bakinu, til að passa að við hegðum okkur almennilega og förum vel með fé. Ég velti líka fyrir mér því sem mér sýnist vera að áætlanagerðin sé ekki nógu góð og að við séum mjög oft að vanáætla. Við erum að því líka fyrir árið 2014, það liggur alveg fyrir. Við sjáum það bara, það liggur til dæmis fyrir að nokkrir skólar munu að óbreyttu ekki geta rekið sig innan fjárheimilda. Það er eðlilegt að við spyrjum hvort þá eigi að breyta þjónustunni. Á að skera niður? Á að finna peningana á einhverjum öðrum fjárlagaliðum? En það er fátt um svör.

Við erum enn einu sinni komin með fjáraukalagafrumvarp þar sem við ætlum að redda þessu fyrir horn.

Mér finnst það líka svolítið alvarlegt að hæstv. forseti vor, Alþingi og sjálf ríkisstjórnin nái ekki einu sinni að vera innan ramma fjárlaga. Þá fallast manni eiginlega hendur. Ég er ekki að segja að eitthvert bruðl sé í gangi eða þannig en áætlanir ganga bara ekki eftir.

Það er eiginlega búið að segja allt um tekjuhliðina sem ég hef um hana að segja. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Ég var mjög hissa á fyrsta máli nýrrar ríkisstjórnar, sem var að hækka ekki virðisaukaskatt á gistingu, og verða þannig af 500 milljónum í ár og 1,5 milljörðum á næsta ári og til framtíðar. Ég tel að ferðaþjónustan geti vel séð af því og eigi að vera skattlögð eins og aðrar greinar. Hið sama má segja um sjávarútveginn. Þetta eru greinar sem standa vel núna, njóta lágs gengis krónunnar og eðlilegt að þær leggi til núna þegar við þurfum á hverri krónu að halda.

Mér finnst líka svolítið skrýtið, og var komið inn á það áðan, að við höfum til dæmis dregið verulega úr fjárveitingum til uppbyggingar ferðamannastaða en á sama tíma erum við að setja hundruð milljóna í markaðssetningu. Við viljum fá ferðamennina hingað en við höfum eiginlega ekki tök á að sinna þeim. Við erum í raun með ósjálfbæra ferðaþjónustu eins og staðan er í dag, við erum bara með ágang á náttúruna og spurning hvað hún þolir það lengi.

Það er líka annað atriði sem ég vil nefna og mun óska eftir sérstakri umræðu um við hæstv. fjármálaráðherra en það varðar svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. Mér finnst að við eigum ekki að líða slíkt nú á tímum þegar ríkissjóður er tómur. Við þurfum á því að halda að allir borgi sína skatta og skyldur. Það er líka áhyggjuefni hversu illa gengur að innheimta fésektir vegna slíkra brota. Ég hef átt umræður við hæstv. innanríkisráðherra um það hér í þingsal og veit að hún tekur það mál alvarlega.

Þegar ég var ekki þingmaður heldur bara óbreyttur kjósandi horfði ég á og heyrði oft talað um að stöðnunin sem ríkti í þjóðfélaginu væri eiginlega hv. þm. Steingrími J. að kenna. Nú er hann ekki lengur að þvælast fyrir, hefur ekki gert í sex mánuði og ég sé svo sem ekki að það breyti neinu. [Kliður í þingsal.] Vandamálið snýst auðvitað ekki um einstaka ráðherra eða jafnvel hvaða ríkisstjórn er við völd, við erum bara ekkert búin að bíta úr nálinni með þessa kreppu og það eru alls konar utanaðkomandi áhrif sem við glímum líka við, efnahagsástandið í Evrópu og annað, þannig að þetta er bara, eins og sagt hefur verið hér, verkefni sem við eigum öll að koma að og kannski hætta að kenna einhverjum ákveðnum einstaklingum um hvernig staðan er.

Mér finnst líka uppsetning, af því að ég leyfi mér að tala svolítið eins og nýgræðingur hérna, fjárlagafrumvarpsins og fjáraukalagafrumvarpsins óskýr. Ég skil þetta ekki alveg og ég er farin að líta þannig á að ef manneskja eins og ég, sem svona slefa í meðalgreind, skil ekki hlutina þá eru þeir of flóknir. Jafnvel stundum erum við á fundum fjárlaganefndar að spyrja ráðuneytin út í hlutina og maður skilur varla eftir að þau eru búin að svara. Stundum velti ég því fyrir mér hvort einhver skilji margt af því sem stendur hér.

Ef ég nefni eitt dæmi er hér undir forsætisráðuneyti verkefni sem snúa að græna hagkerfinu sem menn eru samt búnir að draga til baka en setja samt peninga í. Hérna eru 74 milljónir sem ég veit ekkert í hvað eiga að fara. Eins er sótt hérna um 165 milljónir í verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa. Allt í góðu með þetta en af hverju er verið að sækja um þetta í fjáraukalagafrumvarpi? Af hverju er þetta ekki bara eitthvað sem menn horfa til inn í framtíðina? Ég skil það þannig að verið sé að biðja um þetta á þessu ári.

Ég held líka að það væri til bóta að einfalda, það eru of margir liðir, verið að veita fé til sambærilegra verkefna jafnvel úr mismunandi ráðuneytum. Ég held að það sé heldur ekki gott þegar verið er að hringla með ráðuneyti og taka verkefni úr einu ráðuneyti yfir í annað eins og til dæmis er verið að gera núna með því að taka verkefni úr menntamálaráðuneytinu og færa yfir í forsætisráðuneytið, allt eftir áhugamáli ráðherra. Ég held að það væri betra að það væri meiri festa í þessum málum.

Við fengum frumvarp til fjáraukalaga fyrir einum og hálfum sólarhring þannig að það er bara ekki nógu mikill tími til að maður geti sett sig inn í þetta af einhverju viti. Ég gagnrýni þau vinnubrögð og minni líka á að við eigum eftir að sjá breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014. Mér finnst það eiginlega ekki ganga ef við eigum bara að fá einn sólarhring áður en umræðan hefst.