143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjáraukalög fyrir árið 2013, sem í raun er ekkert annað en það að verið er að fara yfir fjárlögin og breyta þeim tölum sem óhjákvæmilegt er að breyta og á að mæta, eins og ítrekað hefur komið fram, ófyrirséðum útgjöldum.

Ágætlega hefur verið fjallað um það, af hv. þingmönnum Katrínu Júlíusdóttur og Steingrími J. Sigfússyni, hversu góðu búi sú ríkisstjórn sem nú starfar tók við, en ég ætla aðeins að fara yfir það hvað breyttist þegar ný ríkisstjórn tók við. Ég ætla líka aðeins að fara yfir það hvaða tekjum ný ríkisstjórn afsalaði sér, fara yfir ný útgjöld sem ákvörðuð eru af nýrri ríkisstjórn og síðan útgjöld sem fyrrverandi ríkisstjórn ákvað sem segja má að hafi ekki verið fjármögnuð nema með tilvísun í fjáraukalög. Síðasti liðurinn, sem er áhugaverður líka og skiptir kannski hvað mestu máli, eru þættir sem fara fram úr áætlunum og ekki er tekið á, þ.e. hallarekstur sem ekki hefur verið tekið á frá því þessi ríkisstjórn tók við og ákveðið hefur verið að láta fara fram úr.

Ég sagði í upphafi að ríkisstjórnin hefði tekið við góðu búi og er athyglisvert að skoða, sem menn geta haft allan fyrirvara á, að eftir fyrstu sex mánuðina var greiðslustaða ríkissjóðs send út, hvernig tekjuhorfurnar væru eftir þann tíma, og farið hefur verið yfir það að það var líka gert eftir níu mánuðina. Allt stefnir í að tekjur og annað séu með eðlilegum hætti og greiðsluafkoma ríkissjóðs betri en gert hafði verið ráð fyrir. Í framhaldinu síga hagvaxtarspárnar hægt og bítandi niður. Í fjárlögunum fyrir ári var gert ráð fyrir 2,5% hagvexti. Það er út af fyrir sig rannsóknarefni hvað veldur þessari hagvaxtarminnkun, það er farið alveg niður í 1,7% í fjáraukalögunum — að vísu hefur svo komið fram síðar að birt hefur verið ný spá um að útkoman verði yfir árið 2%.

Ef maður les það sem kemur frá greiningardeildum, frá atvinnurekendum, frá Samtökum atvinnulífsins og ýmsum aðilum þá segja menn að óvissa hafi hamlað hagvexti. Fyrrverandi ríkisstjórn heyrði oft að það væri orsök þess að hjól atvinnulífsins snerust ekki nógu hratt, en það hefur ekkert breyst á þeim sex til sjö mánuðum frá því ríkisstjórnin tók við. Þar er verið að segja að óljós áform um það hvað sé fram undan, meðal annars um skuldaleiðréttingar, sem vonandi skýrist nú á næstu tveimur dögum, valdi því að menn treysti sér hvorki til að gera langtímakjarasamninga né að spá hærri hagvexti eða raunar að koma hjólunum í gang.

Á sama tíma er mjög athyglisvert að sjá, bæði í fjáraukalögunum og í fjárlögunum, sem liggja fyrir þinginu til afgreiðslu, að sú hugmyndafræði sem hefur legið fyrir frá stjórnarflokkunum, eins og var raunar alltaf fyrir hrun, það að lækka skatta, auka svigrúm fyrir atvinnulífið o.s.frv. muni auka tekjur — þess sér hvergi stað. Það er eins og ríkisstjórnin hafi enga trú á þessu sjálf og kannski ekki að ástæðulausu.

Það er líka athyglisvert sem hér er verið að ræða um og er dæmigert fyrir umræðuna, þ.e. að fjáraukalög hafi gjarnan verið misnotuð, miklar leiðréttingar hafi verið í fjáraukalögum og að meðaltalið sé 10–12% á síðustu tíu árum. En það hefur líka komið fram í umræðunni að ef við skoðum þetta frá hruni hefur aginn í ríkisfjármálum verið miklu meiri en áður þó að það verði að viðurkennast að högg hafa komið á ríkissjóð vegna áfalla sem eru bein afleiðing af hruninu sem hafa skollið á ríkissjóði og hefur þurft að fjármagna; útgjöld sem verða aldrei leyst í fjárlögum eins, tveggja eða þriggja ára með niðurskurði.

Ef við skoðum hvernig staðan er langar mig aðeins að taka næst afsalið á tekjum og þá komum við inn á hagvöxtinn eins og ég nefndi áðan. En það eru líka þessar ákvarðanir sem teknar voru um að hafa lægri tekjur af veiðigjaldi og lægri tekjur af ferðaþjónustu, þ.e. fyrst og fremst af erlendum ferðamönnum. Þó að þarna sé talað um 4 milljarða í fjáraukalögunum þá vegur það býsna mikið, það er býsna há tala miðað við það sem við þurfum á að halda.

Það er rétt, sem hefur komið fram, að eignasalan hefur ekki gengið eftir. Í sjálfu sér má líka spyrja: Af hverju hefur ekkert verið gert í því síðasta hálfa árið miðað við fjárlögin? Það eru þrátt fyrir allt sex eða sjö mánuðir frá því ríkisstjórnin tók við. Það vekur líka fullt af spurningum hvers vegna ríkisstjórnin velur að hætta við framkvæmdir. Fyrri ríkisstjórn lá undir ámæli fyrir að hafa ekki staðið fyrir nægum framkvæmdum, að fjárfestingar hafi verið allt of litlar. Hvernig stendur þá á því að menn skera út framkvæmd eins og til dæmis við Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi — þar sem verið er að búa til mjög öflugan hagræðingarpakka til langs tíma með því að fara með hjúkrunarheimili inn á heilbrigðisstofnunina — strokuð út, bara beint í fjárauka, áformin eru slegin af til ótilgreinds tíma.

Sama er uppi á teningnum á Selfossi. Heilbrigðisstofnun sem átti að koma í betra umhverfi til framtíðar og koma betra skikki á — frábær bygging, búið að hanna, allt tilbúið, bara slegið af. Framhaldsskóli þar sem sveitarfélögin hafa safnað 140 millj. kr., slegið af. Ég get haldið svona áfram. Hús íslenskra fræða; 550 millj. kr. áttu að koma frá Háskólahappdrættinu, sem hefði verið gott að fá inn í framkvæmdir hér á höfuðborgarsvæðinu miðað við ástandið á hagvextinum, það er slegið af. Og við getum haldið svona áfram.

Það er líka athyglisvert að sjá það sem kemur inn í tekjuhlutann, það er afsalið á IPA-styrkjunum frá Evrópusambandinu. Þar voru stór verkefni sem þarf þá að fjármagna á annan hátt. Þau verkefni voru ekkert endilega bundin aðlögun að Evrópusambandinu nema hvað það var aðstoð við ýmislegt. Matís átti að fá þarna styrki, Þýðingarmiðstöðin sem þýðir lög og reglur sem við þurfum að innleiða hvort sem er. Þarna eru 556 millj. kr. tekjur sem er hent út. Það eru því margar spurningar sem vakna og þetta eru ákvarðanir ríkisstjórnarinnar á tekjuhliðinni.

Varðandi það sem ný ríkisstjórn hefur ákveðið af útgjöldum á þessum tíma ber hæst umtalsverðar upphæðir í stjórnun, fjölgun ráðherra, aðstoðarmanna, til Alþingis, til forsetans. Þetta virðast vera brýnustu verkefnin og þarna er verið að bæta í umtalsverðum upphæðum sem hefði verið gott að fá í önnur verkefni fyrir stofnanir ríkisins, fyrir velferðarkerfið.

Svo koma svona skrýtnar æfingar eins og í kringum forsætisráðuneytið þar sem græna hagkerfið er skorið niður um 280 millj. kr., einhver peningur settur í verkefni tengd sögulegri og menningarlegri starfsemi byggða, fornleifum o.fl. — þó ekki nema 165 millj. kr. þannig að þar er skorið niður um 120. Þetta er ofan í skúffu og við vitum ekkert hvernig á að deila úr henni eða hver á að fá. Þarna eru allt í einu til peningar, jafnvel þó að verið sé að skera niður. Það hefur síðan komið fram í umræðunni að mjög erfitt er að henda reiður á miklum tilfærslum á verkefnum milli ráðuneyta.

Einnig er forvitnilegt að sjá að eitt af stóru kosningaloforðunum, um aðgerðir í þágu öryrkja og ellilífeyrisþega, kostar um 1.100 millj. kr. með öllu, annars vegar 870 millj. kr., sem leiðir af þeim breytingum sem gerðar voru og fara til þeirra sem höfðu atvinnutekjur, eingöngu til þess hóps, ekki til lægsta hópsins, og síðan 287 millj. kr. sem er lýðfræðileg fjölgun umfram það sem áætlað hafði verið. Er fróðlegt að sjá þetta í samhengi við það sem fyrri ríkisstjórn ákvað og ber ábyrgð á, sem voru 1.250 millj. kr. í jafnlaunaátak sem dreifðist til heilbrigðisstétta þar sem konur voru 67% starfsmanna eða meira á heilbrigðisstofnunum ríkisins.

Það er jákvætt í ákvörðunum nýrrar ríkisstjórnar, og full ástæða til að geta þess, að áætlað er að setja af stað hjúkrunarheimili á vegum Landspítalans á Vífilsstöðum með 40 plássum. Í það eru settar 136 millj. kr. á þessu ári. Síðan kemur Íbúðalánasjóður, sem færður er inn með 4,5 milljarða. Að vísu voru 13 milljarðar í áætlun og sú heimild stendur enn en aftur á móti er 4,5 milljarðar bókfærðir þarna. Hægt er að nefna Matís, það er eitt af þessum IPA-verkefnum sem fara hér inn með 200 millj. kr. sem hefði að verulegu leyti verið styrkt af Evrópusambandinu ef við hefðum haldið þeirri starfsemi áfram.

Það er líka ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar hvernig hefur verið skorið niður í rannsóknar- og þróunarstyrkjunum, bæði markáætlunin sem fer út með 200 millj. kr., rannsóknasjóðirnir, Tækniþróunarsjóður og ekki síst niðurgreiðsla á þróunar- og nýsköpunarkostnaði fyrirtækja þar sem var endurgreiðsla upp á 20%, það er tekið niður um fjórðung, fer í 15%. Hvaða skilaboð er verið að gefa með þessu? Og þetta er sett inn strax á þessu ári, inn í fjáraukalagafrumvarpið. Síðan koma útgjaldaliðir sem að mörgu leyti eru ófyrirsjáanlegir, eins og hælisleitendur, sem hækka um 386 millj. kr. sem er kannski óhjákvæmilegt.

Hverju bætti fyrri ríkisstjórnin við? Þegar ríkisstjórnin tók við mátti skilja það sem svo að hún væri að taka við vondu búi. Það var samningur um gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir börn. Áhrifin á fjáraukann eru 45 millj. kr., það er allt og sumt. En það er líka vegna þess að við gerðum ráð fyrir megninu af því en tókum fram þegar þessi samþykkt var gerð að við gætum ekki nefnt endanlega tölu fyrr en samningur lægi fyrir. Það bætir við 45 millj. kr. samkvæmt fjáraukalögunum en verður auðvitað meira á næsta ári.

Ég nefndi jafnlaunaátakið og er athyglisvert að sjá að Landspítalinn fær 735 millj. kr. til að mæta því. Fyrri ríkisstjórn samþykkti 125 millj. kr. vegna inflúensufaraldurs í janúar og vegna sýkinga á sjúkrahúsinu þar sem strax voru gefin skilaboð: Þið gerið það sem þarf til að tryggja velferð sjúklinga ykkar, hvað sem það kostar. Spítalinn áætlaði að það hafi kostað 125 millj. kr. Það er hvergi í þessum fjárauka, sem eru fullkomlega ófyrirsjáanleg útgjöld sem voru viðbótarkostnaður á spítala á miklum álagstíma. Hugmyndin er ekki sú að bæta það upp hér heldur á spítalinn að skera niður fyrir því.

Þetta er munurinn á því hvernig menn stjórna, hvaða ákvarðanir menn taka, og það er raunar ekkert inni í heilbrigðiskerfinu til dæmis annað en jafnlaunaátakið í þessu frumvarpi til fjáraukalaga, ekkert, og ekki heldur til skóla. Nema þar er farið að skera niður eins og Nám er vinnandi vegur og ýmis önnur úrræði sem voru tengd ungu fólki í sambandi við atvinnuúrræði.

Það kemur svo í ljós, ef við skoðum barna- og vaxtabætur, að reglur voru óbreyttar hvað þetta varðar hjá fyrrverandi ríkisstjórn en ástandið er betra varðandi vaxtakostnað heimilanna, þar fara tæpir 2 milljarðar ekki út miðað við frumvarpið. Þá hefði verið í lófa lagið að bæta þá við aftur og gera betur miðað við óbreytta fjárhæð en það er ekki gert.

Það sem líka var stofnað til og er tekið á hér — við skulum ekki gleyma því að í fjárlögum er liður sem heitir Ófyrirséð útgjöld og er upp á 4 milljarða. Fyrri ríkisstjórn freistaðist ekki til þess að reyna að klára þann lið heldur fór þvert á móti mjög varlega með hann og núverandi ríkisstjórn á möguleika á því að nýta þá peninga. Að hluta til hafa þeir verið notaðir í þau áföll sem gengið hafa yfir í náttúrunni, fjárskaðann á Norðausturlandi, kalið, og nú er það Kolgrafafjörður, það fellur allt undir þennan útgjaldalið. Svo má deila um hvort þær eru á vegum fyrri ríkisstjórnar eða núverandi sanngirnisbæturnar sem samþykktar voru, öll sú úttekt sem gerð hefur verið á þeim málaflokki kallar á útgjöld upp á um það bil 295 millj. kr., gríðarlega mikilvægt atriði sem þurfti að leiðrétta.

Síðan koma liðir undir sjúkratryggingum þar sem er hallarekstur og ekki er gripið til neinna aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar, hún lætur þetta bara yfir sig ganga. Um er að ræða verulegar upphæðir, næstum 1,6 milljarða. Hægt er að gagnrýna fyrri ríkisstjórn fyrir að hafa ekki áætlað nægilega fyrir því en alveg eins er hægt að gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir að bregðast ekki við, því að hún er handhafi fjárveitingavaldsins ásamt Alþingi, og þarna eru peningar bara settir beint inn. Ég hefði viljað sjá að menn skiluðu betur inn á einstakar stofnanir, sem þurfa sannanlega samkvæmt úttektum á meiri fjárveitingum að halda, eins og Landspítalinn og raunar fleiri staðir, en það er alls ekki gert og því þá væntanlega vísað inn í fjárlög þar sem um vanáætlun er að ræða sem kallar á breytingar í næstu umræðu.

Ég segi bara eins og ég sagði í upphafi: Ríkisstjórnin tók við góðu búi, hefur spilað illa úr því, skapað óvissu, misst af tekjum, tekið rangar ákvarðanir. Hún verður að bera ábyrgðina á því sjálf.