143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2013, sem hefur vegna einstakra tillagna í frumvarpinu teygt sig yfir á árið 2014, og um ýmis önnur mál. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga að við ræðum ýmsar forsendur á tekju- og gjaldahlið fjáraukalagafrumvarpsins og gerum það í stærra pólitísku samhengi. Það er ágætt að gera.

Ég vil byrja á því að segja að í umræðunni hefur allnokkrum sinnum verið vikið að því að misvísandi upplýsingar hafi komið fram um stöðu ríkisfjármálanna á árinu 2013. Það hefur ekki farið fram hjá mér að í tilkynningum frá Ríkisendurskoðun, jafnvel frá fjármálaráðuneytinu, eftir atvikum frá Fjársýslunni, hafa komið fram upplýsingar sem virðast við fyrstu sýn stangast á við það sem áður hefur verið sagt. En þá verður að skoða að slíkar upplýsingar virðast oft og tíðum vera settar fram á misjöfnum forsendum. Stundum eru menn að skoða áætlanir um tekjur til ríkisins á greiðslugrunni, hvernig þær skiptast á mánuði yfir árið samkvæmt áætlun um skiptingu teknanna, og bera síðan saman við rauninnkomu deilt niður á þessa mánuði, en það er varasamt að nota slíkar upplýsingar til að leggja grunn að áætlun um útkomu fyrir árið í heild.

Í umræðunni gætir líka oft misskilning sem byggir á því að stundum bera menn saman tölur á rekstrargrunni við eitthvað sem áður var sagt á greiðslugrunni o.s.frv. Ég vil bæta því við sem áður hefur komið fram í umræðunni að ég deili áhyggjum af því hversu ruglingslegt þetta getur verið og ég hef kallað eftir því í ráðuneytinu að við beitum okkur fyrir því að allar upplýsingar um opinber fjármál séu settar fram á sömu forsendum og á sama grunni eftir því sem hægt er. Það hefur almennt ekki verið þannig á þessu ári og eflaust ekki heldur á síðastliðnum árum en það skiptir máli fyrir málefnalega umræðu.

Í þessu frumvarpi, eins og í fjárlagafrumvarpinu, reynum við að draga fram það sem við áætlum að verði afkoman samkvæmt ríkisreikningi. Eins og margoft hefur komið fram er það rétt um 31 milljarður í halla á yfirstandandi ári sem tengir aftur við margt af því sem hér er rætt varðandi fjármögnun einstakra liða.

Þegar ríkið er rekið með 31 milljarðs halla má halda því fram, í framhaldi af því sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á í síðustu ræðu, að ekkert af því sem ríkið er að gera sé að fullu fjármagnað vegna þess að eftir standa rúmir 30 milljarðar í halla sem verður að fjármagna með sérstökum lántökum. Ég hef alltaf litið svo á að þegar fjárfestingaráætlun síðust ríkisstjórnarinnar, sem kom hingað til þingsins fyrst og fremst í gegnum fjárlög og jafnvel milli umræðna um fjárlög seint á síðasta ári, var kynnt til sögunnar hafi það verið eins og grunnur hennar, grunnforsenda, væri að menn væru að öðru leyti búnir að ná jöfnuði í ríkisfjármálum þar sem fyrir lá að stefnt var að um 3 milljarða halla á ríkisfjármálum, sem verður að teljast því sem næst jöfnuður í ríkisfjármálum, og þess vegna hafi menn talið sig vera í færum til þess að tefla fram áætlun um fjárfestingar inn í framtíðina væru fyrir því tekjur sem menn ætluðu að afla sérstaklega. Þannig mundi þetta allt standa á endum, þ.e. fjárfestingaráætlunin sérstaklega fjármögnuð og síðan að öðru leyti fjárlagafrumvarp þar sem menn væru um það bil með jöfnuð, 3 milljarða afgang, 3,7 milljarða á rekstrargrunni.

Síðan kemur einfaldlega á daginn að heildarafkoman stefnir í 30 milljarða halla og með því breytast allar forsendur. Það verður að segjast alveg eins og er, og ég tel reyndar að það hafi komið ágætlega fram áður í umræðum, bæði vegna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2014 og aftur í þessari umræðu, að meðal þess sem ný ríkisstjórn gerir þá er að horfa til þess hvað það er sem hefur nýlega verið ákveðið, er ekki komið til framkvæmda og enn hægt að draga til baka. Og já, margt af því fellur í flokk fjárfestingaráætlunarinnar. Eru í fjárfestingaráætluninni eingöngu verkefni af þeim toga sem hér hefur verið farið yfir í umræðunni, t.d. á sviði Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs eða markáætlanir og annað þess háttar? Nei, það er fjölmargt annað í fjárfestingaráætluninni sem fellur utan slíkra sjóða. En svo ég byrji á þeim sjóðum sem svo gjarnan er vikið að í umræðunni hefur það þegar komið fram í tvígang hjá mér að á árinu 2013 er umfang þeirrar starfsemi sem fram fer bæði há Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði það mesta sem nokkru sinni hefur verið.

Við höfum síðan sagt varðandi næstu ár að það verði að vera sérstök ákvörðun í langtímaríkisfjármálaáætluninni að taka til baka þær skerðingar sem leiða af ástandinu í ríkisfjármálum og birtist í langtímaáætluninni hvað þá sjóði varðar. Það er alls ekki þannig að á næstu árum liggi fyrir ákvörðun um að vinda ofan af öllu því sem varð um þessa sjóði sem birtist í fjárfestingaráætluninni, en það verður hins vegar ekki farið í viðbótarfjármögnun sjóðanna án þess að fyrir því hafi fundist nýjar tekjur.

Að öðru leyti er í fjárfestingaráætluninni margt sem spyrja má sig hvort teljist til hreinna fjárfestinga og síðan annað sem er hefðbundið að sé beint í fjárlögum. Ef ég tek til dæmis fasteignir, fjárfestingar í fasteignum sem teljast til hluta af fjárfestingaráætluninni skulum við hafa í huga að opinberar fjárfestingar, þar með talið viðhald og nýfjárfestingar eins og þær sem er að finna hér, og ég gæti nefnt Herjólf, Landeyjahöfn, mennta- og vísindahús, fangelsi o.s.frv., það hefur ekki verið til staðar fjárfestingaráætlun í gegnum árin, síðustu áratugina að baki slíku nema þá sú sem við köllum samgönguáætlun hvað varðar vegi og aðrar slíkar innviðafjárfestingar. Engu að síður hefur fjárfestingarstigið hjá hinu opinbera, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, verið langtum hærra samanborið við fjárfestingaráætlun sem hefur verið hér. Jafnvel að teknu tilliti til þeirra fjárfestinga sem er að finna í þeim efnum í fjárfestingaráætluninni hefði fjárfestingarstigið verið lægra. Þess vegna hef ég svo oft sagt í umræðunni: Ég deili áhyggjum af því hversu mjög hefur dregið úr innviðafjárfestingu hjá ríkinu. En þetta eru ekki fjárfestingar af þeim toga að þótt hafi þörf til að stilla þeim fram í sérstakri fjárfestingaráætlun í gegnum tíðina. Það hefur einfaldlega verið þannig að menn hafa almennt fjárfest meira í innviðum, vegum, nýbyggingum, stofnunum eins og skólum og öðrum slíkum innviðamannvirkjum án sérstakrar fjárfestingaráætlunar.

Í umræðunni er hins vegar áherslan öll á það sem snýr að hinum skapandi greinum. Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni þegar hann segir að við þurfum að fá fleiri sprota. Við þurfum að örva lífið í nýjum greinum sem eiga sér ekki vaxtarmörk innan lands heldur geta sótt fram á erlenda markaði og stækkað þar. Þar erum við einfaldlega sammála, nákvæmlega hvernig við gerum það skiptir hins vegar máli, útfærslan skiptir máli og sumt af því sem er í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar mundi gagnast vel í þeim tilgangi, annað hef ég meiri efasemdir um. Ég hef nú þegar rætt um rannsóknar- og tækniþróunarsjóðina sem við munum áfram ræða út allt þetta kjörtímabil geri ég ráð fyrir, en skerðingarnar sem við erum að ræða þar og birtast í frumvarpinu sem er á dagskrá hér í dag eru annars vegar á Tækniþróunarsjóð vegna ársins 2013 upp á 150 millj. af 550 millj. viðbótinni þannig að það sitja þá 400 millj. eftir í þann sjóð, og rúmlega 200 millj. í Rannsóknasjóð af rúmlega 300 sem enn var óúthlutað á þessu ári og að öðru leyti nýtur sjóðurinn góðs af því sem hækkað var á þessu ári. Þetta verður verkefni nefndarinnar sem fær málið til umfjöllunar, að skoða sérstaklega hver staðan er á sjóðunum gagnvart yfirferð umsókna og úthlutun á árinu.

Um fjármögnunina fyrir fjárfestingaráætlunina vil ég segja: Menn geta haldið því fram að ríkisstjórnin hafi tekið sérstakar ákvarðanir sem hafi eyðilagt fjármögnun þessarar áætlunar en setjum sem svo að við hefðum látið vera að skerða veiðigjaldið. Eins og ég hef nefnt í umræðunni er þetta orðin algerlega prinsipplaus umræða vegna þess að veiðigjöld eru alltaf í umræðunni í dag ýmist nefnd vegna þess að fjármuni vantar í spítala eða fjárfestingaráætlun eða eitthvað. Veiðigjöld eru einhver ótæmandi sjóður sem maður sækir í þegar mann vantar fjármagn. Veiðigjöld eru ekki lengur hjá flestum stjórnmálaflokkum hér á þinginu grundvöllur að málefnalegri umræðu um auðlindarentu, um að það sé vegna forgangs að nýtingu takmarkaðra auðlinda sanngjarnt og eðlilegt, réttlátt að taka hluta umframhagnaðarins til ríkisins. Nei, veiðigjöld eru einfaldlega réttlætt í umræðunni í dag með því að benda á ágæta útkomu útgerðarinnar, betri en nokkru sinni fyrr, og síðan er vísað til þess að fjármagn vanti í tiltekin verkefni og ríkisstjórnin sem tók við á þessu ári fordæmd fyrir að ganga ekki lengra. Ég vonast til þess að okkur takist að nýju að endurvekja málefnalega umræðu um hvað séu eðlileg, hófleg, sanngjörn, málefnaleg veiðigjöld á útgerðina í landinu. Þá held ég að við kæmumst á betri stað. Að mínu áliti hefði verið of langt gengið með þeirri gjaldtöku sem fyrirhuguð var á árinu 2013. Svo er því haldið fram að ríkisstjórnin hafi á árinu 2014 gengið enn lengra og fórnað frekari tekjum. Staðreyndin er sú að nýjar tekjur sem ríkisstjórnin tryggir í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 eru miklu hærri en sem nemur áætlaðri tekjuskerðingu vegna þessara breytinga, miklu hærri vegna þess að nú er gengið miklu harðar fram í innheimtu bankaskattsins, miklu harðar en nokkru sinni hefur verið gert af fyrri ríkisstjórn og það yfirvinnur allt tekjutapið vegna þess sem hér er verið að ræða. Samt sem áður er ríkissjóður á árinu 2014 algerlega í járnum.

Þetta vildi ég sagt hafa vegna umræðna um að ríkisstjórnin hafi kastað frá sér tekjum. Því er haldið fram að breytingar á yfirstandandi ári, jafnvel næsta, sem ríkisstjórnin hafi sjálf ákveðið að grípa til séu ástæða þess að ráðast þurfi gegn fjárfestingaráætluninni, en þeir sem hafa blandað sér í þessa umræðu virðast algerlega horfa fram hjá því að jafnvel þótt þær tekjur væru til staðar, — og í frumvarpinu í dag er fjárfestingaráætlunin 2013 tekin niður um 4 milljarða, einungis brot af því fellur á sjóðina sem eru mest nefndir í umræðunni, tekin niður um 4 milljarða að hluta til vegna þess að framkvæmdum við einstaka fasteignaverkefni, eins og fangelsið, er einfaldlega frestað — jafnvel þótt tekjur hefðu haldist óskertar hvað þetta snertir, veiðigjöldin, sala eigna, arður og annað þess háttar hefði ríkissjóður samt verið rekinn með á þriðja tug milljarða í halla. — Samt með á þriðja tug milljarða í halla. — Hvernig er það fjármagnað? Það er fjármagnað með lántökum. Ég fór yfir það í framsöguræðu áðan hvernig ríkið þarf að sækja út á lánamarkaðinn til að standa undir þeim halla sem verður á yfirstandandi ári.

Varðandi það sem komið hefur fram í umræðunni hjá ýmsum þingmönnum um agann í framkvæmd fjárlaga vil ég fagna því. Ég fagna þeim tóni sem birtist í þinginu þar sem kallað er eftir því að aukið aðhald verði með framkvæmd fjárlaganna. Við teljum að í frumvarpinu birtist mjög skýr stefnumörkun af hálfu nýrrar ríkisstjórnar um að fjáraukalögin gegni ákveðnu hlutverki. Við sjáum eitt minnsta frávik frá fjárlögum á gjaldahliðinni sem sést hefur í langa tíð. Heildarfrávikið skýrist að langmestu leyti af tekjuhliðinni en hlutur fjáraukalaganna á gjaldahliðinni hefur eiginlega ekki verið minni í seinni tíð.