143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði úr forsetastóli af athygli á hæstv. fjármálaráðherra flytja frumvarp til fjáraukalaga fyrir 2013. Þá kom upp í huga minn þegar ég tók líka mið af fjárlögum 2014, 2. umr. um frumvarpið og breytingartillögur fer fram næsta þriðjudag, þar sem ég hef setið í fjárlaganefnd sem varamaður nokkra fundi að þar kom fram að helmingslíkur væru á að sú umræða færi fram á þriðjudag. Nú hef ég fengið fundarboð um þriðjudags- og miðvikudagsfundi þar sem ekki er gert ráð fyrir breytingartillögum vegna 2. umr. fjárlaga.

Hvers vegna segi ég þetta og nefni þessi tvö atriði? Það er vegna þess að mér finnst einhvern veginn eins og umræðan núna um fjáraukalög með tilliti til þess sem verið er að gera með fjárlögin, sem er ekki tilbúið og er langt á eftir áætlun, sé ekki tímabær, að það sé ekki tímabært að hæstv. fjármálaráðherra komi með þetta frumvarp inn núna vegna þess að á morgun hefur verið boðað af hálfu ríkisstjórnarinnar að haldinn verði fundur þar sem tillögur nokkurra vinnuhópa um að taka á skuldavanda heimilanna verði birtar.

Ástæðan fyrir því að ég kem í stutt andsvar við hæstv. ráðherra er til að spyrja hann hvort þær tillögur sem koma fram á morgun og Morgunblaðið fjallar mikið um í dag, þar sem á að uppfylla stærsta kosningaloforð Íslandssögunnar hjá Framsóknarflokknum um allt að 300–340 milljarða leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum heimilanna í landinu, hafi ekki áhrif á svo margvíslegan hátt á fjáraukalögin og ég tala nú ekki um á fjárlögum næsta árs. Þess vegna er þetta spurning mín til hæstv. ráðherra: Munu tillögurnar sem kynntar verða á morgun ekki hafa áhrif á fjáraukalögin, það sem eftir er af þessu ári, svo að ég tali nú ekki um fjárlög fyrir næsta ár?