143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög erfitt að eiga orðastað við hv. þingmann þegar hann gefur sér ákveðnar forsendur sem ég tel reyndar að séu (Gripið fram í.) mjög fjarri því sem er líklegt að geti gerst. Í framhaldinu spyr hann svo hvort það mundi ekki hafa einhver alvarleg áhrif á stöðu ríkissjóðs.

Ég get bara sagt í þessu samhengi að ég tel rétt að umræður um skuldamál heimilanna verði fyrst og fremst á grundvelli hugmynda sem verða þá þegar komnar fram. Ég bíð enn eftir því að sérfræðingahópurinn skili endanlega af sér svo að við getum tekið þá umræðu á einhverjum vitrænum grundvelli.

Að öðru leyti deilum við hv. þingmaður þeirri skoðun að það skiptir gríðarlega miklu máli að verja lánshæfi ríkisins og auka ekki við skuldir þess þannig að (Gripið fram í.) lánshæfið sé í uppnámi eða (Gripið fram í.) að okkur auðnist (Forseti hringir.) að greiða skuldir niður á næstu árum.