143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að endurtaka spurningu sem ég lagði fyrir ráðherra áðan. Ég byrja kannski á að segja að í síðari ræðu hans kom ýmislegt fram. Það er alveg augljóst að hóflegt og sanngjarnt er eitthvað sem við erum ekki sammála um, sem viðmið í þeim efnum.

Það var ánægjulegt að heyra að hann taldi að sumt í fjárfestingaráætluninni gæti gengið ágætlega, en hann hefur samt ákveðið það að ýta því öllu saman út af borðinu.

Í upphafi máls hæstv. fjármálaráðherra kom fram að fjármálaráðuneytið veit um hallarekstur sem er ekki óskað eftir að verði leiðréttur núna í fjáraukalögunum. Því langar mig til að spyrja hann: Um hvaða stofnanir er að ræða og hvað á að gera í þeirra málefnum? Er ætlunin að fella niður einhvern halla í lokafjárlögum? Og til dæmis þessar stóru stofnanir, af því að verið er að tala um að þær hafi ekki áhrifin á fjárlagagerðina fyrir næsta ár, ég er því ekki sammála.

Við erum með stórar stofnanir; Landspítalann, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðina en nú er verið að vinna frumvarp um afnám markaðra tekna og þar er risastór skuld sem þeir telja að þeim beri ekki að greiða, og hvað þá ef teknar verða af þeim markaðar tekjur. Auðvitað veltir maður fyrir sér: Á að skerða þær stofnanir enn frekar á næsta ári eða á að koma með eitthvað inn í lokafjárlögin núna?

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað honum finnst um að fólkið hér í salnum hafi ekki verið við umræðuna, hvorki formaður fjárlaganefndar né varaformaður. Mér finnst það afar sérkennilegt. Ég er ekki hokin af þingreynslu en mér er það til efs að það hafi verið þannig við umræðu eins og þessa að formennirnir hafi hvorugur verið við hana. Ef þeir eru ekki á landinu eða eitthvað slíkt er það þá vegna þingstarfa?