143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lét þess getið í andsvari mínu hér áðan að í sjálfu sér væri ekkert af því sem ríkið væri að gera að fullu fjármagnað ef ríkið væri rekið með halla. Út frá þeirri hugsun mætti segja að allt væri ágætlega fjármagnað ef ríkið væri rekið réttum megin við núllið. Það er hins vegar ekki hægt að segja að sumt sé fjármagnað þegar ríkið er rekið með halla en annað illa fjármagnað. Kannski er það grundvöllur þess misskilnings sem mér finnst hafa verið í umræðunni að við erum almennt að tala um að forsendur fyrir sérstakri fjármögnun fjárfestingaráætlunarinnar hafi brostið þegar tekjur ríkisins hrundu að öðru leyti. Það voru ekki bara þær tekjur sem sérstaklega höfðu verið eyrnamerktar fjárfestingaráætluninni, það voru ekki bara þær sem skiluðu sér ekki allar, heldur breyttist staðan úr því að vera því sem næst í jafnvægi yfir í mikinn mínus.

Um fjárfestingaráætlunina að öðru leyti þá er hún hér, var kynnt á sínum tíma, liggur frammi, hún hefur verið saumuð inn í langtímaáætlun í ríkisfjármálum, en hún er ekki lög. Framlög til einstakra þátta á þeim sviðum sem fjallað er um í fjárfestingaráætluninni eru í sjálfu sér ákvarðanir Alþingis hverju sinni. Sá málflutningur sem ég vil standa fyrir í því samhengi er að við tökum ákvarðanir sem byggjast á því að við keyrum ríkið ekki í halla.

Við deilum þeirri sýn, ég og hv. þingmaður, að fjölga þurfi sprotunum í íslensku atvinnulífi, að við eigum að líta til sóknarfæra hjá nýjum geirum eins og hugverkageiranum og mörgum öðrum skapandi greinum. Ég er hins vegar ekki sammála því að einungis sé hægt að vinna að því með því að tefla fram fjárfestingaráætlun eins og þeirri sem hér var gerð á sínum tíma. Ég nefni sem dæmi að 1.200 milljónir í málefni tengdum sveitarfélögunum í landshlutaáætlanir (Forseti hringir.) er nýtt fjármagn, tekið af rekstri ríkissjóðs í halla, (Forseti hringir.) vissulega í mörg spennandi verkefni, en þar fannst mér hafa verið yfirskotið.