143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkeppnissjóðunum, eins og Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði, hefur verið komið á fót á grundvelli hugmyndafræði sem gengur einmitt út á það að styðja þurfi við fyrirtæki á þessu stigi æviskeiðsins, sem eru ný og eru að koma undir sig fótunum, en einnig á grundvelli þess að skynsamlegt sé að styðja við rannsóknir og þróun hjá fyrirtækjum sem eru komin vel á veg, að það geti áfram borgað sig að styðja við uppbyggingu á þeim sviðum. Ég styð slíka uppbyggingu.

Ég bendi hins vegar á að sé slíkur stuðningur byggður á lántökum og hallarekstri ríkisins muni það leiða til þess að auka þarf aðhald með peningamálastefnunni, hækka vexti, en háir vextir eru á sama tíma versti óvinur þessara fyrirtækja, þannig að það þarf að finna eitthvert jafnvægi þar á til að styðja við félög af þessum toga.

Varðandi bankaskattinn tel ég að þrotabúin séu (Forseti hringir.) nú líklega í einhverri allra bestri stöðu allra félaga á Íslandi ef um raunveruleg félög er að ræða … (GStein: Í mörg ár?) — í einhver ár. Þau eru í einhverri allra bestu stöðu til þess að vera aflögufær með skatt og það er engin ástæða til þess að undanþiggja þau eins og gert hefur verið (Forseti hringir.) undanfarin ár. (Gripið fram í.)