143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

tollalög og vörugjald.

179. mál
[15:11]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tollalögum og lögum um vörugjald. Málið snýst í raun um að svokallaðar staðgengdarvörur mjólkur, sem geta verið sojamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk, haframjólk, verði undanskildar tollum og vörugjöldum. Þetta eru breytingar á tollalögum, nr. 88/2005, 1. gr. og ég ætla ekki að lesa upp alla liðina því að það er ósköp skýrt í frumvarpinu sjálfu. Síðan eru breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald.

Það er hópur fólks sem einhverra hluta vegna neytir ekki mjólkurvara. Það getur verið með ofnæmi eða óþol fyrir laktósa eða fyrir mjólkurpróteini og þarf að kaupa svokallað staðgengdarvöru sem er frekar dýr. Mér finnst ekki á það bætandi að vera líka með vörugjöld og tolla í einhverjum tilfellum.

Í greinargerðinni segir að neysla mjólkurafurða hafi aukist mikið og útlit sé fyrir að fyrirtæki í mjólkurvinnslu muni af þeim sökum kaupa um 3 milljónir lítra mjólkur umfram greiðslumark á líðandi ári. Ákveðinn hópur fólks getur ekki neytt mjólkur vegna mjólkuróþols eða mjólkurofnæmis. Fyrir þennan hóp eru staðgengdarvörur mjólkur mjög mikilvægur þáttur í að viðhalda eðlilegum lífsgæðum. Það sama gildir um þá sem kjósa að neyta ekki mjólkur af öðrum ástæðum.

Það er umtalsverður verðmunur á staðgengdarvörum, sem eru sojamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk og haframjólk, og á venjulegri mjólk. Einn lítri af hreinni sojamjólk kostar 369 kr. í einum af leiðandi stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu, en einn lítri af nýmjólk kostar 128 kr. og einn lítri af léttmjólk 115 kr. Verð á staðgengdarvörum mjólkur virðist því vera allt að því þrefalt verð kúamjólkur.

Samkvæmt upplýsingum sem Hagstofa Íslands hefur tekið saman má ætla að meðalfjölskylda eyði um 130.000 kr. í mjólkurvörur og egg á ári hverju. Telja verður líklegt að stór hluti þeirrar upphæðar sé til komin vegna kaupa á kúamjólk.

Mjólkurkaupin koma mjög mismunandi niður á þeim sem neyta kúamjólkur og þeim sem neyta staðgengdarvara. Við teljum verulegt tilefni til að draga úr þeim mun og ekki réttlátt að refsa þeim fjárhagslega sem af einhverjum ástæðum kjósa að neyta ekki mjólkur. Þar af leiðandi leggjum við til að tollar og vörugjöld á sojamjólk, hrísmjólk, hnetumjólk, möndlumjólk og haframjólk verði felld niður.

Það má svo bæta við að við Íslendingar göngum mjög langt í tollvernd og í rauninni allt of langt að mínu mati. Mér finnst vera mikið réttlætismál að þeir sem einhverra hluta vegna neyta ekki mjólkur séu ekki skattlagðir sérstaklega því að þeir neytendur taka líka þátt í að niðurgreiða mjólkurframleiðslu á Íslandi, sem er eitthvað um 6 milljarðar, en geta jafnvel ekki neytt þeirra afurða sem þeir taka þátt í að niðurgreiða.

Ég á ekki von á öðru en að þetta frumvarp fái jákvæða meðferð hér í þinginu og sé ekki hvernig er hægt að vera á móti málinu.