143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

hækkanir ýmissa gjalda ríkisins.

[10:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Af skrýtnu svari forsætisráðherra má draga þá ályktun að upplagt væri að ríkisstjórnin hækkaði þessar álögur meira vegna þess að þá mundi hagur landans batna meira. Það er mjög undarleg hagfræði. Ég nefndi áðan sveitarfélögin og gagnrýni stjórnarherranna, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, á þau fyrir hækkanir — já, það er alveg rétt, sveitarfélögin hættu við að hækka og því verða sömu gjaldskrár, en það var spurning mín til hæstv. forsætisráðherra hvort ekki væri tilvalið að ríkisstjórnin kæmi eins fram og hún krefst að sveitarfélögin geri og þau hafa þegar gert. Eins og segir í hinni gullnu reglu, hæstv. forsætisráðherra, virðulegi forseti: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Væri ekki upplagt að gera það líka hér og nú?