143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart RÚV.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ekki aðeins er það rétt hjá hv. þingmanni að framsóknarmenn hafa verið talsmenn öflugs Ríkisútvarps, framsóknarmenn stofnuðu Ríkisútvarpið árið 1930. Þá var einstaklega góð ríkisstjórn en í henni sátu eingöngu framsóknarmenn. Eitt af mörgum afrekum þeirrar ríkisstjórnar var að stofna Ríkisútvarpið.

Hv. þingmaður spyr hvað hafi breyst frá því að flokksþing samþykkti ályktun sína um fjölmiðlamál. Það hefur ekkert breyst frá því að sú ályktun var samþykkt.

Hvað varðar útvarpsgjald og að það renni óskipt til RÚV þykir mér það eðlilegt fyrirkomulag að það gjald sem lagt er á vegna Ríkisútvarpsins renni óskipt til þess, enda eru áform uppi um það, eins og lýst er í fjárlögum.

Hvað varðar hins vegar tilvitnun hv. þingmanns í viðtal við mig í Kastljósi er það alveg rétt sem ég nefndi þar, að ekki stóð til að taka Ríkisútvarpið sérstaklega út fyrir sviga eða skera mikið meira niður þar en annars staðar, enda varð sú ekki raunin. Því miður hefur þurft að spara víða, einfaldlega vegna þess að það er sú staða sem ríkisstjórnin tók við, að ríkið hefur verið rekið með viðvarandi halla núna ár eftir ár og skuldir aukist jafnt og þétt. Því miður var ekki um annað að ræða en að spara og það er verið að spara víða. Ríkisútvarpið hefur ekkert verið tekið sérstaklega þar út frekar en aðrar stofnanir, raunar aukast framlög til Ríkisútvarpsins en líklega dregur úr tekjum útvarpsins vegna þeirra lagabreytinga sem hafa verið gerðar varðandi möguleika stofnunarinnar á því að selja auglýsingar og afla sér sérstakra styrkja. Framlög ríkisins á fjárlögum til Ríkisútvarpsins hafa hins vegar aukist, ólíkt mörgum öðrum stofnunum.