143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart RÚV.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Augljóslega er ekki verið að draga úr neinu aðhaldi, eins og menn hafa heldur betur orðið varir við undanfarna daga. Hins vegar er alveg ljóst að þurft hefur að spara víða í ríkisrekstrinum.

Hvað varðar hins vegar þá forgangsröðun sem stjórnendur Ríkisútvarpsins ákveða að fylgja er það ekki stjórnmálamanna að skipa fyrir um það svo framarlega sem Ríkisútvarpið uppfyllir lagalegar skyldur sínar. Menn geta haft þá skoðun að það hefði átt að forgangsraða með öðrum hætti innan stofnunarinnar en það er á valdsviði stjórnenda Ríkisútvarpsins að taka ákvarðanir um það og í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja að menn ræði þá forgangsröðun almennt. En stjórnmálamenn geta ekki gefið stjórnendum Ríkisútvarpsins fyrirskipanir um það að auka framlög til Rásar 1 og draga úr framlögum til Rásar 2 eða eitthvað slíkt.

Hér er um að ræða opinbera stofnun sem hefur þurft að spara eins og margar aðrar opinberar stofnanir. Menn geta svo (Forseti hringir.) deilt um hvort það er gert með besta mögulega hætti.