143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

lax- og silungsveiði.

198. mál
[10:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 246, sem er 198. mál. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Frumvarp þetta er samið að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en með frumvarpinu eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að lögfest verði ákvæði í lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, þess efnis að takmarka ábyrgð félagsmanna á fjárskuldbindingum veiðifélags. Veiðifélög eru sjálfstæðir lögaðilar samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum um það efni. Tilteknir þættir í starfsemi veiðifélaga geta verið fjárhagslegs eðlis sem hefur meðal annars þá þýðingu að veiðifélög geta átt eignir og stofnað til fjárhagslegra skuldbindinga.

Veiðifélög bera ábyrgð á skuldbindingum sem stofnað er til vegna starfsemi þeirra með eignum sínum, m.a. með þeim eignum sem þinglýstar eru á nafn veiðifélags. Ákvæði í gildandi lögum eru hins vegar ekki skýr um hvort eða hvaða ábyrgð einstakir félagsmenn geta borið á skuldbindingum sem stofnað er til vegna starfsemi veiðifélaga. Fyrir liggur álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands sem unnin er af Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, fyrir Landssamband veiðifélaga þar sem fram koma þau sjónarmið að félagsmenn kunni að bera fulla, ótakmarkaða og solidariska ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélags samkvæmt lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði.

Í ljósi skylduaðildar að veiðifélögunum er talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um þessi efni í lögunum. Með frumvarpinu er því lagt til að lögfest verði ákvæði um að félagsmenn í veiðifélagi beri ekki persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélagsins.

Til viðbótar við framangreint eru með frumvarpinu lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sem talið er rétt að gera með sama frumvarpi. Meðal annars er lagt til að breytt verði ákvæðum um tímamörk reglna sem veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki starfa veiðifélög, setja um stangveiði á veiðisvæði sínu og ákvæði um gildistöku arðskrár.

Í fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið. Ég vísa að öðru leyti til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þessari umræðu legg ég síðan til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.