143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:19]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má ekki vanmeta hið einstaklingsmiðaða. Fólk ræður til dæmis hvenær það vaknar og hvenær það fer að sofa og hvernig það hagar lífi sínu að mjög miklu leyti. Þessi tillaga snýst um að hafa veruleikann eins og hann er og vera ekki að blekkja okkur neitt. Ég meina, við erum hér á jörðinni, á þessum stað og sólin er uppi á þeim tíma sem á að vera kl. 12, þ.e. 12.30 á Íslandi, 12 á Egilsstöðum, og við ætlum einfaldlega að hafa þetta rétt.

Það er til ágætisyfirferð yfir rannsóknirnar sem ég vísa til og við vísum í hana í greinargerðinni í nýjasta SÍBS-blaðinu. SÍBS er búið að skilgreina þetta sem mjög mikilvægt lýðheilsumál. Ég kann ekki að fara algjörlega í saumana á þessu þótt það hafi verið rakið fyrir mér hvernig þetta virkar lífeðlisfræðilega. Þetta snýst um hormónið melatónín í líkamanum og þau hormónaskipti sem eru tengd því hormóni, að þeim þurfi að ljúka áður en maður vaknar. Ef maður vaknar áður en þeim er lokið, því að þau hormónaskipti taka einkum mið af gangi sólar og birtu á morgnana, þá einkennist dagurinn af sleni og þreytu. Áhrifin eru vissulega einstaklingsbundin en þetta eru áhrifin sem svona röng klukka getur haft og hefur. Því viljum við breyta.