143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:25]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því, það er einmitt mjög mikilvægt að nálgast þetta mál með opnum huga. Við eigum ekki að líta svo á að það sé bara hoggið í stein hvernig klukkan er stillt. Það var bara ákvörðun sem var tekin 1968, að mig minnir, að hætta með vetrartíma og sumartíma á Íslandi. Þá var tekið upp það fyrirkomulag að hafa í raun endalausan sumartíma. Það er að okkar viti blekking, við verðum að skrá tímann til samræmis við það hvar við erum staðsett á jarðarkringlunni.

Ég hvet þá sem munu fjalla um þetta mál í nefndum að skoða einfaldlega með opnum huga allar þær rannsóknir sem hafa verið gerðar. Það er út af þeim sem tillagan er lögð fram. Hún er ekki lögð fram út af einhverjum einstaklingsbundnum sjónarmiðum eða út af sérvisku eða slíku, þetta er umræða sem á sér stað til dæmis líka í Bretlandi, að ég held. Umræðan um klukkuna þarf að vera virk og mjög mikilvægt að vera opinn fyrir nýjum vísbendingum og við þurfum að taka ákvörðun á grundvelli rannsókna.