143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér finnst þetta áhugavert mál. Það má eiginlega segja að loksins sé komið eitthvað á dagskrá hér á þingi sem skipti máli. Ekki eru stóru málin að koma frá ríkisstjórn, svo mikið er víst. En ég vil blanda mér aðeins í þessa umræðu og rifja það upp að það er ekki nýtt hér í sölum Alþingis að rætt sé um klukkuna. Satt best að segja var það árlegur viðburður hér um nokkurt skeið að tillaga um að breyta klukkunni var flutt en það var að vísu í gagnstæða átt svo merkilegt er það nú. Svona er þetta nú kostulegt. Hér var kappsamur þingmaður, áhugamaður mikill um að flytja klukkuna enn nær Evrópu. Ég var algerlega andvígur þeirri tillögu og átti minn þátt í því að hún náði nú aldrei fram að ganga, leyfi ég mér að segja. Af því að mér fannst það auðvitað alveg arfavitlaust og notaði þá ýmis sömu rök og ég heyrði flutningsmann einmitt fara með hér áðan.

Það væri nú að bíta höfuðið af skömminni, finnst mér, að storka lögmálum náttúrunnar þannig að við skekktum klukkuna í hina áttina og kannski er ástæða til að fara yfir það hver rökin voru fyrir því. Þau voru aðallega að færa Ísland nær Evrópu í þessum skilningi; þess vegna á Samfylkingin sennilega erfitt með að fylgja Bjartri framtíð í þessu máli ef hún er sjálfri sér samkvæm. Rökin voru mjög skemmtileg. Þau gengu meðal annars út á það hve það væri meinlegt og bagalegt í viðskiptum Íslendinga við Evrópu að svona um það bil sem við værum komnir á fætur, sérstaklega yfir sumartímann þegar þeir væru búnir að flýta sinni klukku, og komnir á ról og komnir í vinnuna, og ætluðum að fara að eiga viðskipti við Evrópumenn eða samskipti, væru þeir komnir í hádegismat og þegar þeir kæmu úr hádegismat þá værum við farnir í hádegismat. Það sæju allir menn að þetta væri ómögulegt, þarna dyttu alveg út einir tveir til þrír tímar í virku viðskiptasambandi Íslands og Evrópu út af því að hádegismaturinn eða tíminn stæðist ekki á.

Ég sagði hins vegar að þetta væri alveg fráleitt vegna þess að klukkan væri nógu skökk nú þegar miðað við sólargang — sem vel að merkja er náttúrlega ekki gott hugtak. Yfirleitt eru íslensk orð gagnsæ og tær og fín en sólargangur er auðvitað ekki gott hugtak því að það er jörðin sem snýst um sólina en ekki öfugt.

Ég man eftir því að margt spaugilegt var rifjað upp í þessari umræðu og meðal annars grilltíminn í eftirmiðdaginn. Þá var jú maður hér í landinu sem var með þá kenningu að þeir sem aðhylltust viss stjórnmálaöfl vildu græða á daginn og grilla á kvöldin og það þyrfti að vera bjart og huggulegt og helst gott veður þegar menn væru að grilla á kvöldin. Menn veltu því fyrir sér, hvort það kæmi þá ekki niður á grilltímanum ef menn færðu klukkuna enn lengra í hina áttina.

Ég tók Akraborgina einu sinni á þessum árum, hún var enn við lýði þegar tillagan var fyrst flutt á Alþingi, og átti þar samræður við ágæta konu sem hafði frétt af þessu merka máli. Hún spurði mig: Hvað heitir hann þarna ungi maðurinn hjá ykkur á þinginu sem vill bæta klukkutíma við sólarhringinn? Hún hafði skilið það þannig að í raun ætlaði Vilhjálmur Egilsson, þáverandi hv. þingmaður, að vera svo rausnarlegur við þjóðina að hann ætlaði að bæta klukkutíma við, það hefði auðvitað komið sér mjög vel.

En er ég þá ekki eftir þessa gagnmerku ræðu að lýsa því að ég sé sammála þessari tillögu? Nei, ekki endilega en ég er þó miklu nær því að styðja breytingu klukkunnar í þessa átt heldur en hina. En það þarf auðvitað að huga vel að þessu og velta því fyrir sér hvað við værum í sjálfu sér að græða með því? Nú skil ég tillögumann þannig að hann sé ekki að tala um að fara að hringla í klukkunni og taka upp sumar- og vetrartíma og því er ég sammála. Ég hef alltaf verið ánægður með að Íslendingar séu bara með klukkuna á sama róli árið um kring. Veit reyndar að sumar Evrópuþjóðir hefur langað til að taka upp fyrirkomulag Íslendinga en það hefur ekki verið leyft, held ég, af hinu háa Evrópusambandi. Frakkar ræddu það einu sinni hvort þeir ættu ekki bara að gera eins og Íslendingar og hætta þessu hringli með klukkuna innan ársins vegna þess að það væri í raun hætt að skila nokkru og er það þó þannig að það hefur meiri áhrif eftir því sem sunnar kemur á Norðurhvelinu að vera með sumar- og vetrartíma.

Gallinn er meðal annars sá að hér norðan við heimskautsbaug er virkni þess að hreyfa klukkuna bundin við tiltölulega þröngan tíma ársins. Það er jú bjart allan sólarhringinn nokkra mánuði á sumrin og það breytist ekkert, klukkan skiptir ekki öllu máli í því og í raun er þá bara eðlilegt að hún sé sem réttust miðað við okkar stöðu á hnettinum, okkar lengdargráðu. Yfir nokkra mánuði á veturna er skammdegið hins vegar svo mikið að þetta skiptir líka litlu máli og við breytum því ekkert með því að eiga eitthvað við klukkuna. En það eru auðvitað þessir mánuðir á haustin og aðeins inn í veturinn og aftur á útmánuðum þegar færa má rök fyrir því að það geti skipt dálitlu máli hvernig klukkan er stillt. En vegna þess að Ísland liggur þetta norðarlega þá hefur þetta minni virkni en ella. Það að nýta sér dagsljósið, að spara dagsljósið, eins og í raun er hugsunin með sumartímann; ef ég má, virðulegur forseti, fara með enska hugtakið fyrir það orð, þá heitir það „daylight saving time“, þ.e. að spara dagsljósið, hugsunin er sú.

En í nútímanum hefur þetta minni virkni en það hafði hér áður, það er orðið nokkuð ljóst. Og hvað stendur þá eftir? Jú, það sem er auðvitað áhugaverðast er það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, framsögumaður og 1. flutningsmaður málsins, var hér að fjalla um: Eru kannski líffræðileg og félagsfræðileg rök eða lýðheilsuleg rök fyrir því að við ættum að skoða það vel hvort við eigum að reyna að rétta klukkuna enn betur af þannig að hún spili sem best við það hvar við erum stödd á hnettinum? Og ég er áhugasamur um það. Mér finnst það góð hugmynd að leggjast í vandaða skoðun á því en þar af leiðandi er ég ekki alveg tilbúinn til að gefa upp stuðning minn við tillögu þar sem á bara að ákveða þetta.

Ég mundi alla vega fyrir mitt leyti vilja kynna mér þær rannsóknir og þau sjónarmið sem eðlilegt er að vega og meta áður en sú ákvörðun yrði tekin en ég tel gott að það sé gert. Ég hefði þá áhuga á því að heyra sjónarmið flutningsmanns eða flutningsmanna varðandi það hvort kannski ætti að taka þetta í tveimur skrefum. Fyrri áfanginn væri bara mjög vönduð rannsókn og úttekt á þessu þar sem við fengjum okkar hæfasta fólk til að vega þetta og meta út frá öllum sjónarmiðum. Það eru auðvitað líka, þó að ég hafi fjallað um það í gamansömum tón, ákveðin viðskiptaleg sjónarmið sem þarf að vega og meta. Við erum jú mitt á milli meginlandanna, Evrópu og Ameríku, stundum viðskipti og eigum miklar samgöngur í báðar áttir þannig að það hefur vissulega sín áhrif hvernig við stillum klukkuna okkar.

Nú hafa menn leyst þetta ágætlega og ég hef til dæmis ekki heyrt íslensku flugfélögin eða aðra slíka kvarta yfir því þó að við séum með fastan tíma en þeir þurfi að aðlaga sig að breytilegum tíma á hinum enda flugleiðanna. En hvort það sama gilti ef við seinkuðum klukkunni um klukkutíma og Evrópa héldi sínum hætti, þá væri orðinn þriggja tíma munur á okkur og meginlandi Evrópu í viðskiptum og þegar flugvélar færu héðan o.s.frv. Það kynni að reynast snúið. Þannig að við erum nokkuð vel stödd í þessum efnum, okkur sem er tamt að hugsa klukkuna og horfa á veðurfréttirnar út frá norðausturhorni landsins. Það er ekki mikil skekkja í því hjá okkur en hún er talsverð hér vestast á landinu, það er rétt, miðað við sólarganginn — sem er ekki sólargangur heldur ferð jarðarinnar um sól og snúningur. En þetta eru allt saman hlutir sem geta skipt máli við mat á þessu þannig að ég hefði gjarnan getað séð það fyrir mér að við færum svona í þetta mál: Dýpkuðum þekkingu okkar og breikkuðum með ítarlegri stúdíu á þessu. Kannski liggur það að mestu leyti fyrir. Gott og vel, þá þurfum við bara að fræðast, við sem ekki höfum haft fyrir því að setja okkur nógu vel inn í þetta og meðal annars þær rannsóknir sem hv. flutningsmaður vitnaði til. Svo tækjum við upplýsta ákvörðun, eins og það heitir á nútímamáli, þegar við hefðum allar forsendur til þess.