143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú að stór hluti þessa ágæta starfsfólks ætti aðallega að fá hærra kaup og að það eigi ekki að þurfa að skíra það yfirvinnu. Auðvitað er það veruleiki okkar að fólk í stórum stíl vinnur á óboðlega lágum launum. Þó að ég hafi nefnt hér viðskiptahagsmunina gef ég þeim ekki mikið vægi í þessu, bara til að enginn misskilji það. Ég tel að hin sjónarmiðin eigi að vega miklu þyngra, þ.e. þau sem snúa að lýðheilsu og lífi og umhverfi fólks, það er það stóra í þessu máli. Ef við bætum aðstæðurnar og hugsanlega heilsufar og vellíðan fólks með þessu þá gerum við það að sjálfsögðu þó að menn þurfi kannski að færa eitthvað til hádegismat sinn ef þeir þurfa að ná í menn úti í Evrópu. Það vegur ekki þungt í mínum huga og hefur aldrei gert.

Spurningin um samgöngurnar væri þá stærra mál í þessu samhengi og gæti spilað dálítið inn í þarna. En ég nálgast málið út frá því að að sjálfsögðu er það vellíðan okkar og heilsa sem á að ráða mestu í þessum efnum og eins og ég sagði þá hefur þetta vissulega áhrif. Þessi rök gilda alveg á vissum tímum ársins en það er tiltölulega þröngt bil vegna þess hve norðarlega við erum á hnettinum. Er það ekki þannig? Við eigum líka að horfast í augu við að vægi þess að breyta klukkunni innan ársins er meira þegar sunnar kemur.