143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fólk talar nú gjarnan um þetta mál í gamansömum tón og allt í lagi með það. Þetta er nú svolítið alvörumál og ég er með athugasemd frekar en beina spurningu til hv. þingmanns. Það er alltaf gaman að tala um að Samfylkingin hljóti að vera með í þessu vegna þess að þá séum við nær Evrópu. Það er út af fyrir sig rétt en það er náttúrlega þess vegna sem við viljum vera nær Evrópu af því að við höldum að við hefðum það öll miklu betra ef við værum þar en ekki endilega út af klukkunni.

En vegna þess að hv. þingmaður sagði að Evrópusambandið hefði bannað aðildarríkjum sínum að hætta að breyta klukkunni, eða hann gaf það svona í skyn, vil ég segja að Evrópusambandið hefur gefið út tilmæli til aðildarríkja sinna; að þau sem breyta klukkunni geri það öll á sama tíma, þ.e. síðustu helgina í október og síðustu helgina í mars.