143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst frekar auðvelt að styðja þetta mál. Ég hef tekið eftir því að á Íslandi virðist stundum allt gerast aðeins seinna en annars staðar. Það er ekki bara það hvenær fólk á auðvelt með að vakna heldur hvenær fólk fer út á lífið, hvenær það fer í síðdegiskaffi, hvenær það gerir allt í lífinu en er samt einhvern veginn alltaf að reyna að stilla sig við þessa klukku sem virðist vera meira vandamál hér en annars staðar. Mér finnst voðalega auðvelt að styðja þetta mál og sé í sjálfu sér ekki mikla ástæðu til að skoða það ofboðslega vandlega nema kannski í hefðbundnu nefndarstarf þar sem við spyrjum Samtök atvinnulífsins og slík samtök um viðhorf þeirra o.s.frv. Það eina sem ég hef í raun heyrt sem mælir móti þessu er að þetta gerir tímann á Íslandi enn frábrugðnari því sem er í Evrópu, sem mér finnst persónulega ekki jafn stórt mál og það að klukkan sé í samræmi við líkamsklukku fólks.

Mér heyrist það vera staðreynd að klukkan sé ekki í réttu sambandi við líkamsklukku fólks á Íslandi. Við vitum fyrir víst að sólin er skakkari á lofti en ellegar væri. Mér sýnist það vera staðreynd, ég hef ekki heyrt neinn mótmæla því.

Sömuleiðis heyrist mér það vera staðreynd, og ég hef ekki heyrt neinn mótmæla því, að þetta hafi áhrif á fólk. Þá langar mig að benda á að það er ekkert sérstaklega erfitt að breyta klukkunni, það er gert tvisvar á ári í flestum löndum. Þjóðfélagið fer ekkert á hliðina. Við gætum meira að segja prófað að breyta klukkunni eitt árið og ef okkur líkar ekki vel við það þá breytum við henni bara aftur. Það væri ekki stórmál. Það hljómar kannski eins og það sé eitthvert rosalegt mál. Það er það ekki, alls ekki. Eða jú, sumt fólk á kannski í vandræðum í nokkra daga á eftir á meðan líkamsklukkan er að aðlagast en það er ekki eins og þjóðfélagið fari á hliðina. Það er alveg hægt að breyta þessu og frekar auðveldlega, fullyrði ég. Þetta er gert tvisvar á ári í mörgum löndum eins og ég segi.

Auðvitað verður þetta aldrei fullkomið hér á landi. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi áðan er skammdegið mikið á veturna og um hásumar eru varla skil milli dags og nætur, ef nokkur. En þetta hlýtur hins vegar að hafa áhrif, held ég, þegar allt kemur til alls. Það er sjaldnast hávetur og sjaldnast hásumar, þarna eru tímar á milli og þá held ég að þetta geti skipt verulegu máli. Og miðað við hvað það er í raun og veru auðvelt að breyta klukkunni finnst mér þess virði að prófa það í það minnsta. Ég held að það eina sem ég muni sakna við að breyta klukkunni sé að myndir úr geimnum frá NASA eru venjulega á GMT, Greenwich Mean Time, sem við erum á. Þá væri geimtíminn ekki lengur sá sami og íslenskur tími. En við gætum þá alltaf bara bætt við eða dregið frá einn klukkutíma.