143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

háhraðanettengingar í dreifbýli.

203. mál
[12:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að við getum verið sammála um að hér er gríðarlega mikilvægt mál á ferðinni, þ.e. að gera nýja þarfagreiningu og landsáætlun og reyna að efla háhraðatengingar í dreifbýli og á landsbyggðinni. Það kom fram hjá málshefjanda, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, að þegar við ferðumst um kjördæmi okkar eins og Norðvesturkjördæmi og raunar víðar um landið kemur það ítrekað fram sem eitt af fyrstu málunum að samkeppnisstaðan hvað varðar háhraðatengingar skiptir gríðarlega miklu máli. Það er forsenda búsetu fyrir unga fólkið en líka fyrir atvinnulífið og rekstur fyrirtækja og öll önnur búsetuskilyrði.

Ein mikilvægasta forsendan, þegar við ræðum um að menn geti búið á ólíkum stöðum, er að þannig sé búið að fólki að búsetan ráði ekki þjónustunni, þó að það sé aldrei hægt að jafna hana að öllu leyti. Þá verða menn auðvitað að horfa til þess að það eru líka kostir við að vera í dreifbýli umfram það að vera í þéttbýli. En ytri skilyrði mega ekki hamla því að menn geti búið á þessum svæðum.

Það sem oftast er nefnt eru fjarskiptin og rafmagnsöryggið, sem tengist auðvitað fjarskiptum líka og því að reka þjónustu án þess að menn eigi á hættu að rafmagnið detti út langtímum saman. Það er líka rætt um húshitunarkostnað sem er gríðarlegur á ákveðnum svæðum, svokölluðum köldum svæðum. Það er rætt um flutningskostnaðinn og að nokkru leyti hefur verið brugðist við honum. Það er einnig nefnt að bæta samgöngur almennt, þ.e. vegakerfið og flugsamgöngur. Þetta eru svona í fljótu bragði þau skilyrði sem þarf að horfa til fyrir það fólk sem býr úti á landi eða vill setjast að úti á landi, og öll viljum við halda dreifðri búsetu í landinu ef mögulegt er.

Maður hefur oft velt fyrir sér að í gegnum árin höfum við farið í gegnum tímabil þar sem mismunandi kostnaður hefur verið við að sækja ákveðna þjónustu á ákveðnum svæðum, sem síðan var jafnaður. Síminn er ágætt dæmi um þetta. Á sínum tíma var aukakostnaður við að hringja út á land, en fyrir margt löngu var ákveðið að samræma þann kostnað og jafna símkostnaðinn óháð búsetu. Það hefur ekki verið gert varðandi t.d. nettengingar, þar er kostnaðurinn mismunandi eftir því hvar menn eru staddir. Því miður höfum við ekki heldur náð að jafna rafmagnskostnaðinn eins og hefði þurft að gera og ég nefndi raunar áðan, en við erum að gera tilraun til að bæta upp ólíka stöðu hvað varðar flutningskostnað og greiða flutningsjöfnun í þeim tilgangi.

Það hefur aftur á móti verið jöfnunarsjóður varðandi olíuvörur og ákveðin fyrirtæki, m.a. í dagvörum, hafa tekið á sig að jafna kostnaðinn, eru með sama vöruverð um allt land, eins og Bónus. Það fyrirtæki hlýtur þá, ef kostnaður við flutning og annað er mismunandi, að taka viðbótarkostnað þar sem ódýrast er að flytja vöruna og jafna honum yfir landið. Það þyrftum við í raun að gera oftar, eins og hefur verið rætt um í sambandi við köldu svæðin, það mundi ekki kosta okkur svo mikið á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni að tryggja það að við gætum jafnað húshitunarkostnað yfir landið allt í heild.

Menn hafa verið að gera tilraunir til að tryggja að þjónustan sé veitt um allt land, það hefur gengið misjafnlega og verið eltingarleikur við tæknina. Oftast hefur nálgunin verið þannig að menn byrja að koma með einhverja nýja tækni inn á þau svæði sem eru arðsömust, inn á höfuðborgarsvæðið og í þéttbýlið. Og gjarnan er það þannig að áður en menn ná í endann, þ.e. að veita þá þjónustu í dreifðum byggðum, er komin einhver ný tækni á höfuðborgarsvæðið. Ég hef stundum sagt að það þyrfti með einhverjum hætti að snúa þessu við einhvern tíma þannig að menn byrjuðu að prófa tæknina á Vestfjörðum eða einhvers staðar á dreifbýlustu svæðunum og kæmu með nýjustu tæknina þangað, 4G eða hvað þetta nú heitir allt saman og ljósleiðarana, sem voru raunar til staðar eins og á Vestfjörðum — það var náttúrlega ljósleiðari í Bolungarvík frá hernum. Menn mundu byrja þar einhvern tíma og þessi sjónarmið sem alltaf voru uppi um að hagkvæmnin og fjöldinn ættu að ráða væru ekki alltaf látin ráða.

Auðvitað er þetta ekkert einfalt. Annað sem er mjög athyglisvert er þegar menn komu á fjarskiptasjóði á sínum tíma. Þá ákváðu menn, eins og kemur ágætlega fram í greinargerðinni, góðri greinargerð með þingsályktunartillögunni, að fjarskiptasjóður ætti að hjálpa á þeim svæðum þar sem markaðurinn mundi ekki ráða við þjónustuna. Síðan voru skilgreind ákveðin svæði þar sem markaðurinn var talinn ráða við þjónustuna. Það undarlega og sérkennilega gerðist að í raunveruleikanum var aðstaðan býsna góð hjá mörgum þar sem ríkið tók yfir og hjálpaði í gegnum fjarskiptasjóð, en það sem gerði þetta svolítið erfitt var að mörg af þeim svæðum sem voru talin markaðshæf lentu í vandræðum og fyrirtæki gáfust upp. Þau svæði sátu eftir, eins og víða í Borgarfirði og víðar, og drógust aftur úr. Við erum enn þá í þeirri stöðu að verið er að vinna þetta upp. Það nýjasta er, eins og kemur ágætlega fram í greinargerðinni líka, að það eru sveitarfélög sem hafa tekið sig til og jafnað þessa stöðu. Það er ánægjulegt að sjá að gagnstætt því sem oft er haldið fram, þ.e. að slíkt megi ekki, metur ESA það þannig að það að bæta samkeppnisstöðuna með aðstoð sveitarfélaganna sé réttlætanlegt jafnvel þó að það sé gert með opinberum styrk. Ég held að mjög mikilvægt sé að halda því til haga.

Ég fagna þessari tillögu og vona að hún fái framgang í þinginu. Hún á að „harmónera“ með þeim áætlunum sem hafa verið gerðar og við langtímaáætlanir. Þó að við náum ekki alltaf utan um allt sem tæknin er að leiða fram skiptir miklu máli að við reynum að jafna aðstöðuna eins og mögulegt er. Ég hef nefnt það áður að þar er allt atvinnulífið undir. Við erum líka að tala um dreifnámið þar sem menn eru farnir að stunda skóla í gegnum alls kyns tölvutengingar, nettengingar, geta verið í góðu sambandi, fylgst með kennslu annars staðar o.s.frv., og fjarnámið í gegnum háskólana.

Við höfum lítið nýtt okkur það sem margar Evrópuþjóðir eru farnar að gera, að nýta tæknina t.d. í sambandi við læknisþjónustu. Þá geta menn verið í beinu sambandi í gegnum tölvuskjái, fengið aðstoð frá stærri spítölum til að veita þjónustu á strjálbýlum svæðum. Þetta er orðið að raunveruleika víða í heiminum og þyrfti að taka upp í miklu meiri mæli hér.

Við erum líka að tala um alla stjórnsýslu. Það er ekkert langt síðan þeir sem voru að reka skóla og nýju kerfin þar í sambandi við nemendabókhald þurftu að fara til stærri bæjanna til að geta keyrt sínar vinnslur af því að þjónustan var ekki til staðar hjá þeim. Þetta hefur að vísu lagast en það eru samt enn þá erfiðleikar í sambandi við þetta.

Í landbúnaðinum er menn farnir að stýra sinni þjónustu með hátækni og eru jafnvel farnir að fylgjast með því hvernig búreksturinn gengur í gegnum síma. Það skiptir líka máli, að við séum ekki að takmarka þessa möguleika. Þarna kemur rafmagnið líka inn í og rafmagnsöryggið. Og ég tala nú ekki um sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og það að mjög margt fólk sem vinnur við hátækni er ekki háð búsetu, hvar það er statt, ef nettengingar eru í lagi. Það mundi margt vilja búa úti á landi og þar með auka mannlífið þar af því að þá skiptir ekki lengur máli hvort maður er í miðborg Reykjavíkur eða einhvers staðar á Langanesi eða Vestfjörðum til að vinna sitt verk.

Ég held að þetta sé eitt af stóru málunum sem þarf að vinna vel að til að bæta byggðajafnrétti í landinu.