143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

háhraðanettengingar í dreifbýli.

203. mál
[12:21]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því eins og hv. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar og sá þingmaður er á undan mér talaði, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, að við tökum þetta mikilvæga mál upp til umræðu hér á Alþingi. Ég tek í sjálfu sér undir það sem þau hafa sagt og vonast til að ég hafi einhverju við það að bæta. Það er nákvæmlega eins og þingmaðurinn sagði hérna áðan með allar þær tillögur sem við höfum unnið að í þessum efnum til að bæta þessi mál í dreifbýlinu, þær hafa verið gærdagsins tækni þegar loksins er farið að sjá fyrir að þær verði framkvæmdar. Ég tel líka undir það að auðvitað eigum við að byggja þá þingsályktunartillögu sem hér hefur verið flutt á því verki sem fyrir er.

Það sem ég set út á í tillögunni er að við erum kannski ekki að leyfa okkur að hugsa djarfar og út fyrir boxið. Það er það sem mig langar að reyna að færa fram í þessari umræðu. Ég ætla aðeins að hnykkja aftur á því hversu stórt mál þetta er fyrir sveitir og fyrir landsbyggðina af því að þetta er mjög mikilvægt byggðamál. Eins og fram hefur komið hefur þessu verið mikið haldið á lofti af þingmönnum og þetta er búið að vera lengi í umræðunni á fundum sem ég hef sótt í mörg ár, eins og bændafundum, þannig að þetta er í raun og veru stóra málið, eitt af þeim.

Hér hefur verið farið vel yfir möguleikana til fjarnáms. Svo kom ræðumaður á undan mér með athyglisverðan punkt varðandi lækningar og læknisþjónustu í gegnum netið. Ég vil bæta við að það eykur fjölbreytni starfa í dreifbýli og sveitum þannig að staðsetning starfsmannsins skiptir ekki máli. Kannski eru nettengingar og fjarskiptamál mest hamlandi fyrir byggðastefnu og flutninga verkefna hins opinbera og fyrirtækja út á land. Bætt fjarskipti minnka aðstöðumun á milli landsvæða því að verslun er í meira mæli að færast yfir á netið og verslun yfir internetið fyrir dreifbýlið er mjög mikilvæg, ekki síst fyrir þann þátt að hún ein og sér getur eflt póstþjónustu því að flutningaþjónusta og póstþjónusta helst í hendur við netverslun. Í sveitunum hefur póstþjónustunni því miður farið aftur. Sannarlega gætu bættar nettengingar og auknir möguleikar á að nota netþjónustuna bætt þar úr. Það er búið að tíunda hérna mikilvægi þess fyrir ferðaþjónustuna, bókunarkerfin þungu og fyrir annað atvinnulíf. Þetta eykur líka ánægju þess að búa á landsbyggðinni

Síðan mundi ég bara vilja segja og er þá kominn í þann þátt ræðunnar að vilja hugsa út fyrir boxið, eins og sagt er, að við eigum að leyfa okkur að horfa til þess að við getum gert fleiri hluti í einu með því að ákveða einfaldlega að við ætlum í ljósleiðaravæðingu sveita og byggða. Þá koma upp í hugann hlutir eins og gamla koparkerfið sem víða liggur og er víðast hvar kominn tími á endurnýjun. Við skulum sleppa því að halda því við. Það væri eins og að bíta höfuðið af skömminni. Þegar við töluðum um gömlu tæknina horfum þá til þess að nota ljósleiðaravæðinguna til þess að leysa hana af hólmi. Á eftir henni kemur svo fjölmargt annað eins og bætt dreifikerfi sjónvarvarpssendinga og símafjarskipti og slíkt.

Það er mjög mikilvægt að hafa fengið þennan úrskurð ESA um heimildir sveitarfélaga til þess að leggja þessu lið. Ég held að við eigum að halda áfram að vinna nákvæmlega á þeim úrskurði og þeirri hugmynd. Þá vil ég aftur bæta í þegar ég segi hvað við getum leyst meira í leiðinni. Mér kemur í hug, eins og þingmanninum sem talaði á undan mér, raforkuöryggi. Það á enn eftir að setja loftlínur í jörð í sveitum, það á enn eftir að tengja þriggja fasa rafmagn við marga sveitabæi og það er ótrúlega lítill aukakostnaður að hafa á þeim rafstreng rör fyrir ljósleiðara. Það er óskaplegt slys í mínum huga að núna í sumar og nokkur sumur þar áður höfum við verið að plægja niður rafstrengi á vegum Rafmagnsveitna ríkisins án þess að borga 80 kr. meira fyrir hvern metra af jarðkapal til að hafa möguleika á að setja ljósleiðara þar með. Mér þótti sárt að horfa upp á það t.d. í hinni góðu sveit Árneshreppi á Ströndum í sumar þar sem var sem betur fer verið að leggja loftlínur í jörð að ekki skyldi vera lagður kapall fyrir ljósleiðara, en það má alltaf vera vitur eftir á. Þetta er ákveðinn múr á milli innviða í samfélaginu sem ég segi að við þurfum að brjóta niður í kjölfarið á þessari þingsályktunartillögu eða öðrum verkum.

Það þarf að skapa áhuga margra hagsmunaaðila, ríkisins og eigenda annarra innviða. Ég nefni raforkudreifikerfið og mögulega eru þar fleiri þættir. Ég vil líka leyfa mér að vera svo kræfur að horfa bara á þær miklu fjárfestingar sem eru nú komnar ofan í jörðina í formi ljósleiðara, að tengja þá aðila meira og betur saman og vera ekki endalaust að plægja strengina hlið við hlið. Það eru þegar miklir peningar komnir í jörðina og ómarkviss nýting er ekki þjóðhagslega hagkvæm og þess vegna eigum við að leyfa okkur að hugsa þetta með nýjum hætti. Ég tek algjörlega undir það grundvallarsjónarmið að við eigum að hugsa þetta alfarið út frá því að aðstaðan til þjónustunnar sé jöfn og kostnaðurinn sömuleiðis, hvort sem við búum í stórum eða litlum byggðarlögum.

Þetta eru þau atriði sem ég horfi sérstaklega til þegar við fjöllum um þessi mál. Ég get upplýst það við þessa umræðu að innanríkisráðherrann hefur þegar hafið undirbúning að endurskoðun á fjarskiptaáætluninni sem og hlutverki fjarskiptasjóðs sem við höfum nefnt hér áður, til viðbótar því að nálgast fjarskiptamál í dreifbýli bæði út frá þeim punktum sem koma fram í þingsályktunartillögunni og því sem ég hef hér rakið, m.a. með því að bæta afhendingaröryggi rafmagns og slíka hluti. Ég hef tekið að mér að sinna m.a. því starfi fyrir hönd innanríkisráðherra og ég vona að það komist á skrið á næstu vikum og mánuðum. Hún hefur í einhvern tíma haft áætlanir um að kalla eftir tilnefningum hagsmunaaðila eins og Samtaka íslenskra sveitarfélaga, samtaka bænda víða um land og fleiri aðila til þess að vinna að því verki. Þar byggjum við ekki síður á ákveðinni hugmyndafræði sem forsvarsmenn fyrirtækisins Mílu hafa lagt fyrir og talað fyrir á undanförnu ári, sem er sú að allir ljósleiðarar í sveitum og byggðum verði nýttir og að sama skapi verði öllum fyrirtækjum á fjarskiptamarkaði tryggður aðgangur að þeim kerfum til þess að selja þjónustu sína.

Þau tíðindi get ég alla vega flutt í þessari umræðu að innanríkisráðherra hefur þegar hafist handa og efni þessarar þingsályktunartillögu mun að sjálfsögðu bætast við þann verkefnapakka og þær hugmyndir sem þar eru lagðar til grundvallar.