143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

háhraðanettengingar í dreifbýli.

203. mál
[12:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að kveðja mér hljóðs varðandi þessa tillögu, sem ég tek heils hugar undir og er flutningsmaður að.

Hér hefur ýmislegt komið fram hvað þetta mál varðar í nútímasamfélagi, að við teljum tengingar við net vera sjálfsagðar og allar tækninýjungar gera ráð fyrir að við getum tengst netinu hvar sem er.

Eins og hér hefur verið nefnt kom fram, ég held hjá öllum sveitarfélögunum, dreifbýlissveitarfélögunum sem heimsóttu fjárlaganefnd, að staðan væri alla jafna mjög slæm. Eins og hér hefur líka verið sagt var fjarskiptasjóði ætlað að vinna að lagfæringu og koma þeim erfiðu svæðum í tengingu en ljóst er að það hefur ekki tekist.

Viðurkennt er að slæm fjarskipti, hvort sem um ræðir síma eða aðrar tengingar, gagnaflutninga og annað, geta komið í veg fyrir uppbyggingu atvinnu. Það á einnig við um námið og það veikir auðvitað búsetuskilyrðin. Við sem búum í hinum dreifðu byggðum þekkjum það. Mér finnst það vera sanngirnismál að allir íbúar landsins, sama hvar þeir kjósa að búa, í þéttbýli eða dreifbýli, eigi kost á háhraðanettengingum sem standast nútímakröfur.

Einnig kom fram hjá fulltrúum sveitarfélaganna þegar þeir töluðu við okkur um þessi mál að alþjónustugólfið væri of lágt og því þyrfti að breyta. Það er því ánægjuefni að heyra hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni að endurskoðunin skuli vera komin af stað. Ég treysti því að hann fylgi henni vel eftir, maður sem þekkir þessa stöðu mjög vel, að það nái fram að ganga með þeim hætti sem það þarf að gera. Ég tek líka undir það sem kom fram í máli hans að það er ótrúlegt að við getum ekki nýtt okkur allan þann gröft sem á sér stað í sveitum landsins þegar verið er að leggja rafmagn eða annað því að jafnvel er farið að grafa upp aftur á sama stað síðar.

Vitnað var hér til ESA hvað varðar sveitarfélögin. Mér finnst í sjálfu sér að þau eigi ekki að þurfa að standa í þessu sjálf, mér finnst að það eigi að vera hluti af innviðauppbyggingunni. Það má alveg færa fyrir því rök að ríkið styðji ríkulega við þau til að slíkt sé framkvæmanlegt. Landfræðileg skilyrði eru mjög víða erfið. Setja þarf upp marga senda og ýmislegt sem þarf að gera ef það er raunveruleg meining á bak við það að allir eigi að eiga jafnan rétt óháð búsetu. Og þegar maður hugsar um þetta sem öryggismál þá kom fram hjá fulltrúum t.d. Borgarfjarðar eystri, man ég, að þar væru fjarskiptamálin í miklum ólestri og þeir töluðu um að eftir að NMT-kerfinu hefði verið lokað, bæði á sjó og í landi, væri sambandsleysi á fiskimiðunum sunnan Glettings, það væri bara ekki neitt samband og ekki GSM-samband á veginum á Vatnsskarði eða Snotrunesi. Þetta er því risastórt svæði í sjálfu sér sem er utan sambands. Þeir sögðu líka að þar væri í sjálfu sér kominn ljósleiðari niður að húsi en svo vantaði endabúnað, en markaðsmálum væri alltaf borið við til að geta lokið því.

Það er heldur ekki eðlilegt, eins og maður heyrði í samskiptum við sveitarfélögin, að fólk setjist við tölvuna sína og sendi af stað tölvupóst, að það gangi jafnvel til mjalta á meðan skjalið er að skila sér í næstu tölvu. Eða að ferðaþjónustuaðilar geti ekki verið með posa vegna þess að ekkert samband er. Það er náttúrlega afleitt.

Það kom líka fram hjá íbúum Ásahrepps og Flóahrepps að þegar álagið er sem mest er gagnahraðinn þeirra fimm megabæt á sekúndu. Hvað er það? Ég veit ekki alveg aftur til hvaða tíma það sendir mann. Og svo veit ég dæmi þess líka þar sem ekkert samband er. Manni finnst það frekar óraunverulegt að þetta sé svona víða um land.

Þetta flokkast sem grunnþjónusta í nútímasamfélagi að mati okkar sem flytjum þessa tillögu, eins og hér hefur komið fram, ekki ósvipað og Orkuveitan, símaþjónustan eða hvað annað. Fjarskiptafyrirtækin hafa svo sem metið það víða að ekki sé arðvænlegt að leggja ljósleiðara í strjálbýlum byggðarlögum og það er þá væntanlega gróðasjónarmið sem þar ræður för. En við reynum að koma því svo fyrir í tillögunni að öllum Íslendingum sé tryggð háhraðanettenging óháð búsetu. Þegar svona mikill fjöldi fólks hefur ekki slíka tengingu og góðan aðgang að upplýsingahraðbrautinni má líka segja að heimabyggðir þeirra séu ósamkeppnishæfar þegar kemur að vali fólks og fyrirtækja til búsetu. Byggðirnar eru annars flokks í þessu tilliti og íbúum þeirra mismunað af hálfu samfélagsins. Þetta snýst um sanngirni og jöfn tækifæri til allra landsmanna til að velja sér búsetu. Að hafa háhraðanettengingu er sú grunnþjónusta sem sker úr um hvort svæðið telst góður búsetukostur fyrir fólk eða ekki. Verið er að veita fólki bæði dreifbýlis og smærri þéttbýlisstaða jöfn tækifæri á við aðra íbúa landsins til að nýta sér þá möguleika sem netið hefur fært okkur til menntunar, til að afla upplýsinga, skapa atvinnutækifæri og eiginlega vinna við hvað sem er heima og að heiman.

Ég starfaði áður við skóla, menntaskóla, sem er ekki bókaskóli heldur netskóli, tölvuskóli, þar sem allir þurfa að hafa tölvur og allt nám fer í gegnum tölvur og það birtist líklega hvergi eins vel og akkúrat þar hversu internettenging er góð og nauðsynleg þegar kemur að menntun og þátttöku ungs fólks og allra í nútímasamfélagi.

Netið býður upp á ótal leiðir til símenntunar með býsna einföldum hætti, til fjarvinnslu og fjarnáms, eins og hér hefur komið fram, og við vinnu í opinberum störfum og öðru því um líku. Þetta eru möguleikar sem þeir sem búa við lélega nettengingu eiga ekki kost á. Ég segi að í þeirri byltingu sem orðin er og á eftir að verða í þeirri þróun sem er endalaus, tekur aldrei enda, held ég, sem betur fer kannski, er brýnt að stjórnvöld hafi um það forustu að tryggja að allir eigi þess kost að hafa háhraðanettengingu óháð því hvar þeir velja sér að búa.