143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

háhraðanettengingar í dreifbýli.

203. mál
[12:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir það frumkvæði sem hún tekur með flutningi þessarar tillögu sem ég tel vera mjög brýna. Ég vonast sannarlega til, miðað við undirtektir hér, að hún fái brautargengi og verði samþykkt til stuðnings því sem stjórnvöld eru með í kortunum í þessum efnum. Ég held að þetta sé akkúrat sú nálgun sem er rétt núna, að fara í nýja greiningu á ástandinu og setja svo í gang áætlun sem tekur til landsins alls um úrbætur í þeim efnum. Þess er sannarlega þörf og við því gangast allir.

Það er engu að síður freistandi að rifja aðeins upp forsöguna í þessu máli og hvers vegna við erum í þeirri stöðu sem við erum í, ekki til þess að ásaka einn eða neinn heldur einfaldlega til að skilja hvernig þetta ástand varð til, jafn ruglingslegt og það er í raun og veru. Að mínu mati liggur rótin í þeirri ógæfu að menn einkavæða Póst og síma, og símann sérstaklega. Í fyrsta lagi var það óskynsamleg ráðstöfun og við værum betur sett með því að eiga það fyrirtæki en þó einkum grunnnetið. Við sem andæfðum því nokkur á sínum tíma að síminn væri einkavæddur buðum þó alltaf upp á þá útgönguleið eða málamiðlun að ef menn seldu viðskipta- og samkeppnisþáttinn í því fyrirtæki héldu þeir grunnnetinu eftir. Um þetta voru hörð átök hér á þingi á sínum tíma. Þá var svarið og rökin gegn því að það væri hægt, að ekki væri hægt að skipta fyrirtækinu upp, það væri óviðráðanlegt. Þess vegna yrði að selja það, einkavæða það á einu bretti með manni og mús.

En hvað gerðist svo? Hið einkavædda fyrirtæki var ekki mjög gamalt þegar það skipti sér upp sjálft og færði rekstur grunnnetsins yfir í sjálfstætt félag. Þessi rök héldu því ekki vatni og þeir menn sem að því stóðu á sínum tíma bera mikla ábyrgð vegna þess að augljóslega hefði staða hins opinbera til þess að ná fram markmiðum sínum varðandi fjarskiptamál verið allt önnur og betri ef menn hefðu í opinberu félagi eða opinberu hlutafélagi átt grunnnetið sjálft, sem er hið eina rétta fyrirkomulag. Síðan hefur þetta verið baks, heilmikið baks og út úr því hefur ekki komið nógu gott ástand. Er það ekki bara veruleikinn? Þess vegna erum við að ræða þetta hér, á því herrans ári 2013, að tíminn frá 2005, 2006 og fram að þessum tíma nú hefur ekki skilað okkur góðri þróun og fullnægjandi árangri. Það er veruleikinn og menn verða að horfast í augu við hann.

Þarna held ég að markaðshyggjan, nýfrjálshyggjan eða einkavæðingaráráttan hafi birst okkur í sinni hvað vitlausustu mynd og þá er mikið sagt. Þetta er svo arfavitlaust að það hálfa væri nóg. Það jafngildir næstum því að reka margfalt vegakerfi í landinu. Hverjum dytti í hug að mæla því bót eða mæla með því? Auðvitað á að vera eitt vegakerfi, eitt grunnkerfi fyrir fjarskiptin í landinu og svo keppa menn á því neti, bjóða fram sína þjónustu, að sjálfsögðu. Það er enginn að tala um að ríkið eða opinberir aðilar, sveitarfélög standi fyrir þjónustunni en æðakerfið sjálft á að vera opinbert.

Fjarskiptasjóður er settur á fót á sínum tíma vegna þess að menn átta sig á vandamálunum sem munu koma upp. Ég er ekkert endilega að halda því fram að þetta hefði allt saman verið í góðu lagi strax með því að ríkið hefði áfram átt grunnnet fjarskiptanna. En það var þó að mörgu leyti ágæt þróun í því máli á meðan Póstur og sími var til staðar eða Síminn var til staðar sem opinbert fyrirtæki og hægt var að fela honum verkefni, móta stefnuna og láta hana ganga niður í opinbert fyrirtæki sem var skyldugt til þess að gera það sem stjórnvöld vildu að gerðist í fjarskiptamálum.

Þannig jöfnuðum við gjaldskrá símtala í landinu á sínum tíma. Muna menn hvernig það var fyrir um 25 árum þegar það var gríðarlegur kostnaðarmunur að hringja innan svæða og á langlínusímtölum? Á sínum tíma var ungur upprennandi samgönguráðherra sem ákvað að segja því fyrirkomulagi stríð á hendur. Þá var munurinn á innanbæjarsamtölum og langlínusamtölum áttfaldur og Símanum var gert að færa þann mun niður í skrefum og jafna hann síðan að lokum út að fullu. Reyndar spilaði pólitíkin ekki meira inn í þetta en svo að arftaki minn á stóli sem samgönguráðherra, sem var Halldór nokkur Blöndal, kláraði verkið og á fjórum, fimm árum var sá munur jafnaður út. Landsmenn bjuggu eftir það við að sami kostnaður var við að hringja hvort sem hringt var milli húsa í Þistilfirði eða frá Djúpuvík til Reykjavíkur.

Þetta var hægt að gera af því að við áttum fyrirtækið og gátum sagt því fyrir verkum. Svipaða sögu mætti segja af Símanum þegar stafræna tæknin var innleidd um allt land. Þá var það handhægt vegna þess að við áttum fjarskiptafyrirtæki og tekin var um það pólitísk ákvörðun að nú skyldi því lokið að fara úr hliðrænu kerfi með símasamband yfir í stafrænt um allt land. Það kostaði að vísu hugkvæmni að leysa þau mál gagnvart einstökum, mjög afskekktum sveitabæjum og verkinu var lokið meðal annars með því að nokkrir bæir fengu farsíma, stafrænan farsíma þannig að þeir kæmust þó í stafrænu tæknina. Þeir voru einfaldlega afhentir þeim sveitaheimilum til þess að hægt væri að klára verkið.

Tillagan er að mínu mati mjög þörf og mjög brýn og hér hafa þingmenn komið upp og vitnað um, ég get bæst í þann hóp, að þetta var eitt af því sem stóð meira og minna upp úr í samtölum við sveitarstjórnarfólk og íbúa vítt og breitt í okkar víðlenda Norðausturkjördæmi, og það sama er væntanlega uppi á teningunum í Norðvesturkjördæmi, Suðurkjördæmi og auðvitað um allt land, allir gera sér grein fyrir því að staðan í þessum efnum er ekki nógu góð.

Hættan er sú að ef ekki er gripið í taumana og mótuð um þetta stefna verði þróunin áfram tilviljanakennd, að einstöku sveitarfélög sem til þess hafa bolmagn og landfræðilegar aðstæður ráðast í ljósleiðaravæðingu, leggja jafnvel talsverðan kostnað í það, og við höfum séð það gerast, en minni og minnstu þéttbýlisstaðirnir, þeir sem liggja fjærst og dreifbýlar sveitir, verða út undan.

Ég er þeirrar skoðunar að eina varanlega lausnin sé ljósleiðaravæðing landsins. Ég óttast mjög að ef förum ekki í þá tækni munum við sitja áfram uppi með þau vandamál að vera að skilgreina einhverjar þjónustukröfur miðað við þarfirnar eins og þær eru í augnablikinu, jafnvel reyna að sjá eitthvað fram í tímann en niðurstaðan undanfarin ár hefur alltaf orðið að kröfurnar vaxa hraðar en við gerum ráð fyrir þegar við erum að reyna að gera slíkt stöðumat og tækninni fleygir fram. Þetta eru algerlega óboðlegar aðstæður sem menn búa því miður við sums staðar hvað varðar gagnaflutningsgetuna og hraðann og gæðin og háir framvindu stórkostlega víða og getur jafnvel næstum verið úrslitaþáttur um það hvort til dæmis ungt fólk treystir sér til að velja sér búsetu á ákveðnum svæðum, svo maður tali ekki um hindranirnar sem eru í vegi atvinnurekstrar og margs konar samskipta.

Það er meira að segja svo, eins og ég veit að hv. þm. Haraldur Benediktsson þekkir mætavel, að þetta er verulegt vandamál fyrir bændur á sumum svæðum landsins, að geta verið þátttakendur í skýrsluhaldi og gæðastjórnun og öðru slíku. Menn þurfa jafnvel að keyra inn í næsta þéttbýlisstað eða um langan veg og setjast þar við tölvu og skrá inn sínar upplýsingar af því að það er ekki aðstaða til þess heiman frá. Það er auðvitað algerlega fráleitt. Gott netsamband þyrfti að vera í hverju fjárhúsi, í kaffistofunni, þannig að bændur gætu gripið í það milli gjafa og fleira að skrá þar inn.

Ég vil segja að lokum að mín framtíðarsýn í þessum efnum er sú, og mun enginn taka þá skoðun frá mér hvort sem hún er raunhæf eða ekki, að við eignumst aftur eitt sterkt, opinbert flutningsfyrirtæki. Ég held að best væri að sameina í einu sterku fyrirtæki raforkuflutningskerfið og fjarskiptaflutningskerfið og að Landsnet og deild í því eða hliðarbúgrein þar sæi um fjarskiptaþáttinn. Það væri stórkostlegt þjóðhagslegt hagræði í því, ég tek undir það sem hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði í þeim efnum. Núverandi ástand hefur falið í sér mikla sóun, mikla offjárfestingu og bágan rekstur á köflum hjá mörgum aðilum sem sinna þessu. Reykjavík er skólabókardæmi því að þetta snýst nú ekki bara um landsbyggðina. (Forseti hringir.) Reykjavík er skólabókardæmi um ruglið með Línu.Neti, Símanum, Mílu og öllu því.