143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

háhraðanettengingar í dreifbýli.

203. mál
[12:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Erindi mitt í andsvar er í sjálfu sér ekki að mótmæla því sem hv. þingmaður hélt fram í ræðu sinni í sinni sögulegu upprifjun, hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á þessum málum enda lengi komið að þeim. Ég vil bara að mörgu leyti taka undir með honum. Það er athyglisverð hugmynd sem hann nefnir hér í restina um sameiningu grunnnetsins í raforku og fjarskiptum.

Nú erum við vonandi að stíga út úr þessari kreppu og því ástandi sem var, en þá lentu sum af þessum fyrirtækjum í heilmiklum hremmingum. Það er sem betur fer búið að greiða úr í þeim efnum en kannski hefði verið einhver flötur á að sækja í þessi sameiginlegu markmið okkar að hafa öflugt grunnnet í landinu.

Ég vil ekki segja annað en að það er sóun víðar en á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík. Ég þekki það einfaldlega úr minni sveit að þar eru komnir einir þrír ljósleiðarastrengir hlið við hlið en þeir eru samt ekki aðgengilegir fyrir einn einasta bæ í sveitinni. Þetta er náttúrlega bara vitleysa svo maður orði það eins og það er.

Ég árétta í því sem kallað er andsvar hér, sem ég fer í við hv. þingmann, að við eigum að horfa nákvæmlega sömu augum á þetta verkefni, að ljósleiðaravæða sveitabæi og sveitir og byggðir á Íslandi, og við gerðum þegar við tókum upp sjálfvirka símann fyrir 30–35 árum. Þetta er nákvæmlega sams konar verkefni sem þótti sjálfsagt á þeim tíma og ég heyri ekki nokkurn mann deila um það í þessum þingsal að slík samstaða geti náðst. Ég fagna því.