143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

háhraðanettengingar í dreifbýli.

203. mál
[12:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður reynumst vera mjög sammála í þessum efnum og þarf þar af leiðandi ekki málalenginga við í þeim efnum. Ég er mjög ánægður með umræðuna sem hér hefur orðið, mér telst svo til að í henni hafi tekið þátt þingmenn úr öllum flokkum nema Framsóknarflokknum. Við skulum ætla að þeir séu sæmilega sinnaðir í þessum efnum.

Ég tek fram vegna þess sem hv. þingmaður sagði og er alveg rétt að maður velti fyrir sér hvort upp væri komin staða til að ná heim aftur grunnnetinu vegna fjárhagsþrenginga sem þessi rekstur var að hluta til kominn í. Satt best að segja var það þannig, og ég held að það sé ekkert leyndarmál og á að mega segja hér þótt úr ræðustóli Alþingis sé, að fyrirtækið Míla, eða móðurfélag þess eða hvernig sem það var, átti í miklum fjárhagserfiðleikum og var í fjárhagslegri endurskipulagningu og á sama tíma var Gagnaveita Reykjavíkur, það sem einu sinni hét Lína.Net, í þrengingum og eigandi hennar, þ.e. Orkuveitan, í verulegum þrengingum. Það var grátlegt upp á að horfa, mikil offjárfesting á þéttbýlissvæðum og líka úti í strjálbýli eins og hér kom fram. Ég fundaði sem ráðherra um þessi mál og átti meðal annars ágætisfund með innanríkisráðuneytinu þar sem við fórum yfir það hvort mögulegt væri að nálgast málin eitthvað á þessum forsendum. Það voru gerðar tilraunir til þess, m.a. með það í huga hvort annaðhvort ríkið eða ríki og sveitarfélög eða hugsanlega ríkið í samstarfi gegnum Landsnet gætu komið að þessum málum. Landsvirkjun sem sjálf rekur tiltekið fjarskiptakerfi var líka áhugasöm um að skoða þann möguleika að sameina krafta. Ég tel að enn sé mögulegt að gera það. Þess vegna fagna ég því ef vilji er til að hafa það með í þessari skoðun.

Stefnan hefur verið sú að ríkið, eða opinberir aðilar, eignaðist Landsnet og færði það út úr eignarhaldi orkufyrirtækjanna. Það þarf að gera, en það er stórt viðfangsefni og mun taka einhver ár. Þá væri hugsanlega mögulegt að beita síðan afli þess fyrirtækis til að kaupa grunnnetið aftur heim, þess vegna á viðskiptalegum grundvelli, og nota það síðan (Forseti hringir.) í höndum opinbers fyrirtækis til að ná fram þeim markmiðum sem við viljum ná í þessum efnum.