143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

háhraðanettengingar í dreifbýli.

203. mál
[13:06]
Horfa

Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þessa umræðu frekar en þakka fyrir góða og mikla umræðu um þetta þjóðþrifamál sem ég tel vera, háhraðanettengingar í dreifbýli. Mér heyrist að þvert á flokka sé mikill samhugur í hv. þingmönnum að koma málinu áfram og að hægt verði að tengja alla landsmenn með góðri háhraðanettengingu. Þörfin er brýn og eins og hefur komið fram í máli manna er þetta það sem stendur upp úr hjá fólki sem býr ekki við góða háhraðanettengingu, það gerir kröfu um að þetta komi fljótt og dragist ekki von úr viti. Þrátt fyrir góðan hug hjá stjórnmálamönnum í gegnum árin hefur því miður dregist allt of lengi að koma þessum málum endanlega í lag.

Það var ánægjulegt að heyra hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni að vinna sé farin af stað í innanríkisráðuneytinu sem fellur vel að þessari þingsályktunartillögu. Ég á von á því að þingsályktunartillagan fái góðan framgang og verði samþykkt og verði gott innlegg í þá vinnu sem er farin af stað. Ég treysti því að við þingmenn leggjumst öll á eitt með að klára þetta þjóðþrifamál.