143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eins og þingmenn tóku eftir var kynning á tillögum sérfræðingahópsins birt opinberlega í beinni útsendingu u.þ.b. sólarhring eftir að hún hafði verið afhent ráðherranefnd. Það er eiginlega ekki hægt að halda á málunum með opnari og gegnsærri hætti en einmitt þannig og bjóða fréttamönnum í landinu upp á að koma fram með spurningar.

Í millitíðinni hefur liðið einn sólarhringur og ég fagna því ef stjórnarandstöðuflokkarnir vilja nú fá dýpri kynningu á niðurstöðum sérfræðingahópsins og ræða við stjórnarflokkana um það hver verða næstu skref. En það getur varla hafa verið þannig að stjórnarandstöðuflokkarnir, þingflokkarnir í minni hlutanum, hafi gert ráð fyrir því að fá einhverja sérstaka kynningu á niðurstöðum sérfræðingahópsins eða yfir höfuð á fyrirætlan stjórnarflokkanna í þessu máli áður en niðurstöðurnar (Forseti hringir.) urðu opinberar.