143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst svolítið leiðinlegt, verð ég að segja, að þurfa að koma hingað upp undir þessum lið eftir að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerir grein fyrir því að engin áform séu uppi um að stjórnarflokkarnir ætli sér að hafa skipulega kynningu fyrir minni hlutann. Ég satt að segja trúi því ekki að svo sé. Ég hefði haldið að ríkisstjórnin, sem talað hefur fyrir góðum samskiptum og samráði, vildi gera það þegar um væri að ræða svo stóra aðgerð sem hér er undir.

Ég ætla ekki að vera svo viðkvæm að tala um lítilsvirðingu en mér finnst ekki góður svipur á þessu. Hér er stórt mál og menn hafa meira að segja talað um heimsmet í þessu efni og væntanlega vilja menn að samtalið sé sem best upplýst, eða hvað? Ég vil leyfa mér að trúa því enn þá að einhver samstarfs- og samráðsáætlun sé í gangi hjá stjórnarflokkunum í þessu efni. Eða hvað?