143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er dálítið dapurlegt að fylgjast með því hvað stjórnarandstaðan er eitthvað í sárum eftir helgina. Það er eins og helgin hafi verið alveg sérstaklega erfið og þungbær. Síðan hvenær var það þannig að ríkisstjórnin kallaði sérstaklega til minnihlutaflokkana til að kynna sín helstu mál áður en þau mega fara út í opinbera umræðu? Síðan hvenær var það þannig? Var það þannig með veiðigjöldin? Var það þannig að við héldum hér sérstakan fund með minnihlutaflokkum þess tíma til að fá leyfi fyrir því að fara með málið út í opinbera umræðu?

Ég ætla hins vegar að taka hitt fram, ég fagna þeim mikla áhuga sem málið fær hér í þinginu. Það er sjálfsagt að allir þingflokkar fái rækilega kynningu á niðurstöðum sérfræðingahópsins og á þeirri skýrslu sem sérfræðingahópurinn skilaði af sér til ráðherranefndarinnar á föstudaginn. Það var á föstudaginn sem það gerðist. Við erum að halda á þessu máli eins opið og gegnsætt og mögulegt er með því að hafa opinn blaðamannafund í beinni útsendingu og núna á fyrsta þingdegi eftir að skýrslunni var skilað kalla menn eftir því að fá kynningu. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu verður orðið við því, en það er eitthvað einkennilegt (Forseti hringir.) við það að menn hafi gert ráð fyrir því að minni hlutinn í þinginu mundi fá sérstaka kynningu á þessu stefnumáli ríkisstjórnarinnar vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir og stendur í stjórnarsáttmálanum hvað stóð til að gera. (Gripið fram í.)