143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef ekkert við fundarstjórn forseta að athuga en vonast til þess að við förum að komast í þann lið á dagskránni er heitir fyrirspurnir til ráðherra. Þá væri hægt að beina nokkrum fyrirspurnum til ráðherranna um þau málefni sem brenna á þingmönnum.

Ég fagna því að það er kominn fram hér vilji til að upplýsa þingmenn. Það er alltaf gott, upplýsingar eru lykillinn að árangri. Það er ekkert ólíklegt að þær tillögur sem litu dagsins ljós um helgina frá sérfræðingahópnum muni leiða af sér nokkur þingmál. Þá munum við í þinginu hafa fullt tækifæri til að skoða þau og velta þeim fyrir okkur, fá til liðs við okkur alla þá sérfræðinga og gesti á fundi nefnda sem okkur fýsir að ræða málin við. Það væri ekki amalegt ef menn mundu taka fullan og virkan þátt í þeim leiðangri öllum með vonandi smájákvæðni að leiðarljósi. Það veitir ekki af að koma smájákvæðni inn í umræðuna.

Ég fagna þessum tillögum, það er gott að þær eru komnar fram og við skulum nú hefjast handa við að vinna úr þeim, öllum Íslendingum til góða.