143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Mér finnst athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra hafi, í ljósi þessara tillagna, ekki farið yfir það með forseta Alþingis hvernig fara ætti með málið í meðförum Alþingis. Ég tel eðlilegt að hæstv. forseti eigi samtöl við hæstv. forsætisráðherra um það hvernig halda eigi á svona málum.

Ég ætla að minna á að fjárlög eru til meðhöndlunar hér í þinginu þó það sé um það bil að gleymast því að ekki eru haldnir fundir í fjárlaganefnd og verið að seinka umræðum um fjárlög. Ég tel fjárlagagerðina í uppnámi ef hér verður ekki rætt ítarlega um þessa tillögu. Það liggur fyrir, úr munni hæstv. forsætisráðherra, að þetta sé stærsta efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar en í efninu kemur fram að áhrif séu hverfandi á efnahagslífið og það kemur fram að fjárheimildir þurfi úr ríkissjóði til að tillögurnar geti orðið að veruleika. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég óska eftir því að þú eigir samtöl við hæstv. forsætisráðherra og ég tel að við séum að nálgast það að fjárlagagerðin hér sé í fullkomnu uppnámi.