143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

greiðsluvandi heimilanna.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom hér inn á nokkra þætti þessa máls sem hver um sig skiptir miklu í heildarsamhenginu. Eitt er það hvort ríkissjóður muni taka á sig nýjar byrðar þannig að hætta sé á hallarekstri hans í tengslum við tillöguna. Ég tel að nú þegar hafi verið sýnt fram á að með því að bankaskattur verður hækkaður enn frekar gefist tækifæri fyrir ríkið annars vegar til að endurheimta stóran hluta þess kostnaðar sem ríkissjóður hefur þegar orðið fyrir og um leið að tryggja að ríkissjóður sé í færum til að ráðast í þessar umfangsmiklu aðgerðir án þess að afkomu ríkisins sé ógnað.

Aðalatriðið er að heildaráhrif tillagnanna, yfir þann tíma sem þeim er ætlað að taka til, munu leiða til þess að skuldastaða heimilanna mun breytast mjög til batnaðar. Heildaráhrifin fyrir einstök heimili kunna að verða þau — allt eftir atvikum — að húsnæðisskuldir geta lækkað um allt að 20%. Með því er því mikilvæga markmiði náð, sem mikið var rætt um í vor, að á komandi árum þyrfti að vera hægt að gera heimilunum kleift að létta á skuldastöðunni og þar með muni greiðslustaða þess mikla fjölda sem aðgerðirnar geta tekið til batna mjög verulega.

Hér er minnst á þá sem engu að síður eru, eftir aðgerðir á síðasta kjörtímabili, áfram í greiðsluvanda. Þeir hafa með þessum aðgerðum sérstakan hvata til að taka til hliðar séreignarsparnaðinn sinn inn á húsnæðið, inn á húsnæðislánin, og breyta þannig sparnaðarforminu, úr þeim séreignarsparnaðarsjóði sem stendur til boða að spara með skattalegum hvötum í dag og færa yfir í húsnæðið, og með því slá bæði á skuldastöðuna og greiðslubyrðina á komandi árum. Það eitt og sér er aðgerð sem getur skipt miklu til viðbótar við það að fyrir (Forseti hringir.) tekjulága með mikla greiðslubyrði verðum við áfram bæði með barnabóta- (Forseti hringir.) og vaxtabótakerfið.