143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

greiðsluvandi heimilanna.

[15:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það sem hv. þingmaður virðist ekki hafa áttað sig á er að tillögurnar sem við erum hér að mæla fyrir munu einmitt gjörbreyta greiðsluvandanum til framtíðar litið. Með því að skuldirnar geta lækkað um allt að 20% hjá hverjum og einum mun greiðslubyrðin að sjálfsögðu léttast. Það er mergurinn málsins.

Síðan er hægt að finna hér til einhver jaðartilvik eins og hv. þingmaður virðist vera mjög upptekinn af. Hann sér ekki stóru myndina, hann sér ekki allan fjöldann sem kemur til með að njóta góðs af aðgerðunum, heldur reynir að finna einhverja jaðarhópa sem ekki njóta til jafns við aðra góðs af aðgerðunum, en það eru hóparnir sem ríkisstjórnin sem hv. þingmaður studdi og tók þátt í að mynda á sínum tíma skildi eftir. (ÁPÁ: Eyddum meiri pening í …) Á sama tíma segir hv. þingmaður að ný ríkisstjórn sé að ríkisvæða vandann en kallar eftir því að ríkið geri ráð fyrir frekari kostnaði til að taka á vanda þessa fólks. Aðgerðirnar munu sannarlega gagnast öllum þeim sem vilja leggja eitthvað af mörkum sjálfir, ráða því — það er verið að opna fyrir það að fólk ráðstafi sparnaði sínum með þessum sérstaka hætti (Forseti hringir.) og mér finnst engin ástæða til að gera lítið úr því vegna þess að hóparnir (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður er sérstaklega að tala um geta einmitt létt greiðslubyrði sína með því að fá frjálst val og skattalegan hvata til að senda sparnaðinn sinn inn á húsnæðislánin.