143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

lekinn hjá Vodafone og lög um gagnaveitur.

[15:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það var lykilatriði í því sem hún nefndi að farið yrði yfir lögin um gagnageymd, því að grundvallarspurningin lýtur ekki bara að túlkun á lögum um innihald heldur líka um samskiptin sjálf, þ.e. frá hverjum og til hvers, hvaða gagn það hefur gert í raun og veru að hafa þetta ákvæði í lögum.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra að nýju: Hún sagði áðan að farið yrði yfir málið í heild sinni, ferla, lagaumhverfi og annað, en hver verða viðbrögð ráðuneytis og ráðherra við því tiltekna broti sem hér hefur orðið? Verður farið í einhverjar aðgerðir gagnvart þessu tiltekna fyrirtæki? Eru einhver viðurlög gagnvart því þegar fyrirtækin fylgja ekki lögum? Þetta er auðvitað gríðarlega stórt mál, miklar persónuupplýsingar sem hafa farið fram, og einhvers staðar kom fram í fjölmiðlum að tíu þúsund manns hefðu sótt þessi gögn á netið, þannig að umfangið er stórt. (Forseti hringir.) Hver verða því viðbrögðin gagnvart þessum tiltekna glæp, og þá ekki aðeins til framtíðar?