143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

lekinn hjá Vodafone og lög um gagnaveitur.

[15:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Líkt og hv. þingmaður þekkir hefur ráðherra ekki heimildir — sjálfstæði Póst- og fjarskiptastofnunar er talsvert. Ég get ekki tjáð mig um það sem ráðherra hvernig þeir meta að taka eigi á því einstaka máli. Málið hefur verið kært til lögreglu, eins og þekkt er orðið, fyrirtækið hefur viðurkennt að hafa brotið lög og nú fer það til meðferðar hjá til þess bærri stofnun. Ég ætla ekki að kveða upp úr um það nákvæmlega hvernig tekið verður á því, hjá þeirri stofnun, fyrir dómstólum eða hjá lögreglu. Það er annarra að gera það.

Ég tek hins vegar undir það og viðbrögð ráðherra og ráðuneytis eru þau að þetta krefst þess að við förum yfir ferlið allt, að við förum yfir lagarammann, að við förum yfir eftirlitið og við förum yfir það hvernig okkur tekst best að tryggja netöryggi í landinu. Það er það sem við stöndum frammi fyrir.

Samkvæmt reglugerð frá fyrrverandi innanríkisráðherra var ákveðið að skipa ákveðna netöryggissveit, sem nú starfar hjá Póst- og fjarskiptastofnun, hún hefur þetta hlutverk til dæmis með höndum. Síðan er ákveðinn starfshópur í gangi hjá innanríkisráðuneytinu til að fjalla um þetta heildstætt og til framtíðar. En ég held að löggjafinn líkt og framkvæmdarvaldið verði að axla þá ábyrgð og fara í þá vinnu að skoða hvort okkar ferlar eru í lagi og líka, líkt og hv. þingmaður nefndi, hvort lögin sem við höfum (Forseti hringir.) eru í takti við tíðarandann og tæknina, skulum við segja, eða hvort við þurfum að skerpa aðeins á því.