143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

eftirlit með gagnaveitum.

[15:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Fyrirspurn mín er ákaflega sambærileg þeirri sem var hér á undan en ég vil í kjölfar umfangsmestu netárásar hérlendis sem vitað er um benda á eftirfarandi staðreyndir:

Fyrirtæki sem hýsa viðkvæm gögn þurfa að verja þá sem treysta þeim fyrir gögnunum með öllum tiltækum ráðum. Kerfin eru aldrei sterkari en veikasti hlekkur þeirra. Öryggið verður að vera í stöðugri þróun og verkferlar í kringum mælingu á gæðum á öryggi þurfa að vera hnökralausir. Eftirlitskerfi það sem Ísland hefur komið sér upp er fjársvelt. Alvarleiki þess var fáum ljós fyrr en núna um helgina.

Því vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort til standi að efla þær stofnanir sem eiga að sjá um eftirlit og víkka starfssvið þeirra. Þær stofnanir sem um ræðir eru fyrst og fremst Persónuvernd og Póst- og fjarskiptastofnun.

Friðhelgi einkalífs er stjórnarskrárvarin mannréttindi en ekki er virðingin fyrir þessum mannréttindum meiri en svo að fyrirtæki sem ber ábyrgð á því að vernda þessar upplýsingar er greinilega vanhæft til þess og sér enga ástæðu til að axla neina ábyrgð á þeim skaða sem fjölmargir hafa orðið fyrir á neinn annan hátt en segja: Við klúðruðum málunum og ætlum að bæta okkur.

Trúverðugleiki fyrirtækisins er enginn. Viðbrögð hins svokallaða CERT-ÍS-teymis komu allt of seint og voru nákvæmlega engin. Var rætt til dæmis um og lokað fyrir ja.is á meðan fólk gat reynt að verja hina fullkomnu nekt sína sem var auðrekjanleg í gegnum gögnin og ja.is og allir vissu af sem vildu?

Nú guða 10 þús. jólasveinar á glugga þessa fólks og það er nákvæmlega ekki neitt sem fólk getur gert til að verja sig. Finnst ráðherra ástæða til að kanna hvort Vodafone eigi að halda starfsleyfi sínu og endurskoða vinnubrögð og fagmennsku netöryggissveitarinnar?