143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

eftirlit með gagnaveitum.

[15:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aðeins til að nefna það er það alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, það virðist vera og hefur komið fram að margir af þeim sem brjótast inn í svona kerfi gera það í þeim tilgangi einum að sýna að það sé hægt. Það er nokkuð sem við þurfum að vera meðvituð um og líka það að í því felst auðvitað ákveðinn glæpur.

Hv. þingmaður nefndi áðan að mjög margir hefðu núna aðgang að þessum upplýsingum. Þá þurfum við að hafa hugfast að það er ekki heldur löglegt að dreifa eða birta upplýsingar sem við vitum, t.d. fjölmiðlar, að eru fengnar með saknæmum hætti. Það er annað sem við þurfum að huga að og ræða kannski í þessu samhengi.

Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé að vísa til máls er varðar einstaka hælisleitendur hér á landi og hefur verið nokkur umræða um í einstaka fjölmiðlum. Ég get auðvitað ekki tjáð mig um málefni einstakra hælisleitenda eða einstök mál og það veit hv. þingmaður. Til að girða fyrir þá umræðu sem ég heyri að hv. þingmaður ætlar að fara hér með þegar hún vísar til leka úr innanríkisráðuneytinu vil ég segja að það er ekkert sem bendir til þess.

Ég minni líka þingheim á að þau gögn sem koma við í ráðuneytum, t.d. rökstuðningur er varðar svona mál, og það þekkja þingmenn mjög vel, (Forseti hringir.) fara víða á milli stofnana, á milli lögmanna og annarra aðila sem tengjast málunum. Það að hv. þingmaður leyfi sér að fullyrða úr ræðustól að leki hafi orðið úr ráðuneyti án þess að (Forseti hringir.) nokkuð bendi til þess finnst mér ansi bratt.