143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs.

[15:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um að sérfræðingahópurinn, sem skilaði af sér á föstudag, hafi látið gera slíka efnahagslega úttekt, en það er hins vegar augljóst að slíkt hefði jákvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs og lánshæfi og til þess gætu nokkrar leiðir verið færar. Í því sambandi vil ég meðal annars horfa á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjunum en ríkið tók stór lán til að endurfjármagna innlenda bankakerfið, hefur nú þegar greitt um 50 milljarða í vexti af þeim lánum, heldur á hlutabréfunum, og við ættum að skoða möguleika í náinni framtíð á því að létta aftur á þeim eignarhlut og nota söluandvirðið til að greiða niður skuldir.

Ég sé líka fyrir mér að við þurfum að hafa í stöðugri skoðun þörfina fyrir hinn stóra gjaldeyrisvaraforða sem við greiðum fyrir dýru verði og möguleika til þess að greiða til baka við fyrsta tækifæri eins mikið og raunhæft er af erlendu lánunum og lækka þannig vaxtabyrði ríkisins. Önnur eignasala ætti einnig að koma hér til skoðunar en mestu skiptir að við náum tökum á ríkisfjármálunum og hættum skuldasöfnuninni. Með því að ríkissjóður getur farið að skila afgangi munum við komast í færi til að sækja fram á ýmsum sviðum og greiða niður skuldir.

Varðandi málið sem hv. þingmaður vísar til og teflt var fram um helgina og snýr að heimilunum í landinu er augljóst að verði heimilin í landinu ekki þátttakendur í hagkerfinu erum við að stefna í ranga átt. Há skuldsetning heimilanna er sérstakt áhyggjuefni eins og skuldsetning ríkissjóðs. Ég tel að við séum að grípa til efnahagslegra ráðstafana til að tryggja að heimilin komist út úr þeim vítahring skuldasöfnunar sem þau festust í og þar með (Forseti hringir.) tryggja bæði efnahagslega viðspyrnu og stöðu ríkisins til lengri tíma litið.