143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

lánsveð.

[16:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er því miður alls ekki fullnægjandi svar. Það er held ég alveg augljóst að lánsveðshópurinn mun í mörgum tilvikum fá miklu takmarkaðri úrlausn en hann fengi ef gengið yrði í þau mál á grundvelli samkomulagsins við lífeyrissjóðina. Úr því að ríkissjóður gengur in solidum í ábyrgð fyrir þessari niðurfærslu lána samkvæmt tillögum helgarinnar — þannig er það, hann stendur ábyrgur fyrir þessari 80 milljarða kr. niðurgreiðslu auk þess að afsala sér skatttekjum sjálfs sín og sveitarfélaganna inn í framtíðina í hinu tilvikinu þar sem er séreignarsparnaðurinn — er þá ekki nokkur fengur í því að halda a.m.k. inni þeirri kostnaðarþátttöku lífeyrissjóðanna þó ekki sé nema á bilinu 12–15% sem fólgið er í samkomulaginu frá því í apríl?

Ég held af tvennum ástæðum að það gætu verið afdrifarík mistök að leggja það samkomulag til hliðar og vísa lánsveðshópnum bara inn í hinar almennu tillögur. Að því marki sem þau fá úrlausn er það allt hjá ríkinu en hlutur lífeyrissjóðanna ekki einu einni með og að hinu leytinu til sýnist mér ljóst, en áskil mér þó rétt til að skoða það betur, að í stórum stíl muni (Forseti hringir.) sá hópur fá miklu minni úrlausn samkvæmt almennu tillögunum.