143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

ríkisstyrkt flug.

128. mál
[16:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir spurninguna.

Því er til að svara að í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að ríkisstyrkt flug á þá staði sem fyrirspyrjandi nefnir verði óbreytt fyrir árið 2014. Miðað hefur verið við að tillögur um framhald og nákvæmt fyrirkomulag á ofangreindu flugi eða flugi milli Gjögurs, Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar verði sett fram í 12 ára samgönguáætlun. Eins og áður hefur komið fram er í undirbúningi endurskoðun á þeirri 12 ára áætlun, þ.e. 2015–2026, sem miðað er við að fari í gang strax eftir áramótin og liggi fyrir stuttu síðar.

Ég vildi líka í þessu samhengi, vegna þess að hv. þingmaður ræddi sérstaklega um þá umræðu sem eðlilega á sér stað í viðkomandi samfélögum úti á landi, þ.e. um það hvort til standi að halda þessu áfram með sama hætti og gert hefur verið ráð fyrir, þá ítreka ég að það verður gert. En því er líka til að svara til upplýsingar fyrir þingheim að undanfarið hefur verið unnið í miklu og nánu samráði við hagsmunaaðila að ákveðinni félagshagfræðilegri greiningu á þýðingu innanlandsflugsins. Sú vinna er nú á lokastigum og verður skýrsla um niðurstöður hennar gefin út á næstu vikum. Það er margt athyglisvert í því uppleggi en markmið þeirrar skýrslu var einmitt að styðja við stefnumótun varðandi áætlunarflugið og þá að meðtöldu flugi í almannaþágu svo sem til Gjögurs, Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar. Allt þetta mun liggja fyrir eins og ég sagði áðan, fyrirkomulagið og forsendurnar, í 12 ára samgönguáætlun. Það stendur ekkert annað til, eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, en að gert sé ráð fyrir að það sem kallað er ríkisstyrkt flug verði óbreytt á þá staði sem hér voru nefndir.